Burt með biturð

Skrifað af Dagbjört Eiríksdóttir. Posted in Pistlar

Heilbrigð tré með sterkan stofn og fallegar greinar sem bera ávöxt eru falleg og mikið augnayndi. Það sem við sjáum ekki þegar við lítum slíkt tré er það sem leynist undir yfirborðinu niðri í moldinni. Forsenda þess að tré sé fallegt og beri mikinn og góðan ávöxt er að rætur þess séu heilar og sterkar. Öðruvísi ná þær ekki að taka upp næringu og bera upp stofninn og út í greinarnar. Ef ræturnar eru ekki heilar ber tréð ekki ávöxt heldur er visið og óheilbrigt.

Eins er það með líf okkar, andlega talað er oft sagt að uppspretta okkar liggi í hjartanu. Ef rótarkerfi okkar er ekki hreint, heilt og sterkt er næsta víst að við berum ekki mikinn ávöxt í lífi okkar. Biblían varar okkur við að gæta þessa að í lífi okkar finnist engin beiskjurót sem geti saurgað líf okkar.

Til þess að bera réttan og góðan ávöxt í lífi okkar þurfum við því að vera tilbúin að skoða hvað leynist í hjarta okkar, hvort það sé hreint og án allrar beiskju. Ávextir beiskju geta verið margvíslegir og allir slæmir, t.d.: fíkn, gremja, þunglyndi, losti, siðleysi, reiði, ófyrirgefning, hatur, öfund, afbrýðisemi ofl. Biturleikinn blekkir okkur en Guð hreinsar okkur til að við mættum vera heil og bera þann ávöxt sem hann vill sjá í lífum okkar, ekki fyrr en þá verðum við frjáls.

Það eina sem til þarf er viljinn til að skoða hjarta sitt, gangast við því sem þar er að finna og veita Guði verkheimild til að rífa upp og fjarlægja hverja þá rót sem ekki ber góðan ávöxt. Keppumst því eftir að vera andlega heilbrigt fólk með sterkt, heilt og gott rótarkerfi sem skilar miklum og góðum ávöxtum í lífi okkar.

Íhugun og framkvæmd

  1. Þegar einhver talar af biturð og slæmri eftirsjá, hversu langt nær biturðin í lífi hans/hennar? Er hægt að vera bitur bara á afmörkuðu svæði í lífi sínu?
  2. Naómí sagði „Kallið mig ekki Naomí, kallið mig Mara, því að hinn Almáttki hefir búið mér beiska harma“ (Rut 1:20). Hvað er hægt að segja við þann sem segir „Guð gerði mér þetta?”
  3. Hvernig líður þér þegar sá sem hefur sært þig gengur vel og er blessaður af Guði? Hvernig sér Guð þennan einstakling og hvert er álit Guðs á því sem gerðist á milli ykkar og þú upplifðir?

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta á Dagbjörtu Eiríksdóttur predika um efni þessa pistils.

Pin It

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Hvítasunnukirkjan á Selfossi