Tómt hús er opið hús

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Stundum er ég þreyttur og þá er erfitt að fá sig til að tengjast Guði, t.d. biðja eða lesa og það er auðveldara að láta undan freistingum eða gera eitthvað miður gáfulegt. Ég vildi óska þess að þetta væri ekki svona og að gæti ég bara sett í hlutlausann gír án frekari afleiðinga. En vandamálið er að ég á óvin. Það er til illska í þessum heimi. Persónulegt illt afl sem vill rústa lífi mínu (1Pét 5:8).

Ég hef séð fólk losna við óværu úr lífi sínu eða kynnast Jesú í fyrsta skiptið en fylgja því svo ekki eftir og smám saman fjarar undan því aftur. Fyrsta gleðin dofnar, annir taka yfir og það er ekki tími til að hitta aðra lærisveina, byggjast upp í bæn, orði Guðs og uppbyggjandi samskiptum við aðra sem eru að feta vegferð lærisveinsins.

Við eigum öll þennan óvin sem vill eyðileggja líf okkar. Hann virðist einmitt hafa sérstakan áhuga á þeim sem hafa sýnt viðleitni til að tengjast Guði.

Lestu gaumgæfilega hvernig Jesús lýsir þessu:

(43) Þegar óhreinn andi fer út af manni, reikar hann um eyðihrjóstur og leitar hælis, en finnur ekki. (44) Þá segir hann: ,Ég vil hverfa aftur í hús mitt, þaðan sem ég fór.' Og er hann kemur og finnur það tómt, sópað og prýtt, (45) fer hann og tekur með sér sjö aðra anda sér verri, og þeir fara inn og setjast þar að, og verður svo hlutur þess manns verri eftir en áður. Eins mun fara fyrir þessari vondu kynslóð." (Mat 12:43-45)

  1. Augljóst er af samhenginu og reyndar öllu NT að óhreinir andar fara ekki út nema tilneyddir.
  2. Vers 43: Eftir að út er komið þá leita þeir að nýjum stað. Þeir greinilega vilja búa í “húsi.” Óhreinir andar sækjast eftir því að komast inn í líf okkar og setjast þar að.
  3. Vers 44: Eftir að hafa árangurslaust leitað að nýjum stað ákveður óhreini andinn að fara aftur á gamla staðinn. Þegar hann finnur þennan stað tóman virðist aðgengið vera auðvelt. Tómt hús er opið hús.
  4. Vers 45: Óhreinir andar taka gjarnan aðra óhreina anda með sér. Þetta er hópíþrótt hjá þeim.
  5. Vers 45: Óhreinir andar skemma líf okkar og auka óreiðuna. Líf okkar verður verra á eftir.

Lykilatriði í því sem Jesús er að segja er að ef við losnum við óhreina anda þá er mikilvægt að skilja líf okkar ekki eftir tómt heldur fylla það af Jesú þannig að þegar óhreinu andarnir snúa aftur komist þeir ekki aftur inn. Þessvegna er svo mikilvægt að skilja húsið okkar (hjarta okkar) ekki eftir tómt heldur fylla það af Jesú svo það sé ekkert pláss fyrir óværu.

Íhugun og framkvæmd

  1. Upplifir þú stundum tómleika innra með þér? Ef svo er, hvernig hefur þú brugðist við? Hvað hefur reynst vel og hvað hefur reynst illa?
  2. Þegar Jesús kallaði lærisveina til sín þá kallaði hann þá ekki bara til sín heldur líka til að vera saman í hóp. Ert þú að hitta aðra lærisveina reglulega til að lesa, biðja og kalla hver annan til ábyrgðar? Ef ekki, hvað er að hindra þig í því og ertu tilbúinn að breyta því? Allt sem þarf er að finna einn annan og þú getur byrjað með Líf hóp.

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Ágúst Valgarð Ólafsson predika um efni þessa pistils.

Pin It

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Hvítasunnukirkjan á Selfossi