Sigur á heiminum?

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Jóh 16:33 Þetta hef ég talað við yður, svo að þér eigið frið í mér. Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.

Það virðist óhagganleg staðreynd lífsins að við upplifum öll þrengingar. Jesú sagði “hafið þér þrenging.” Hann sagði ekki “gætuð þið haft þrengingar” eða “þeir slæmu hafa þrengingar” - nei. Hann sagði “hafið þér þrenging” og svo punktur. Þetta er reynsla okkar allra.

Sigur á heiminum?

Fyrir mörgum árum gekk ég í skóla þar sem einn kennarinn hafði þann leiða sið að mæta of seint í tíma. Eftir rúma önn tók ég hann á eintal og bað hann að bæta úr þessu. Ég útskýrði að með þessu sýndi hann okkur nemendum, námsgreininni og sjálfum sér óvirðingu. Hann lofaði öllu fögru, en ekkert breyttist. Skólastjórann tók ég á eintal, allt kom fyrir ekki. Loks áttaði ég mig á því að ég hafði tvo kosti í stöðunni: Halda áfram að pirra mig á þessu það sem eftir var eða sleppa tökunum á þessu.

Þetta er svipað með þrengingar og mótlæti. Annað hvort sættum við okkur við þetta og leitumst við að verða góð í að bregðast við og vinna úr þrengingum eða þá við höldum áfram að pirra okkur á þessu það sem eftir er lífsins. Svipað því sem lýst er í æðruleysisbæninni.

En Jesú segir fleira í þessu versi, hann segir líka “En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.” Fyrst segir Jesú: Það verða þrengingar í heiminum, punktur. Næst segir hann: Ég hef sigrað heiminn. Við getum ekki sigrað heiminn, en hann hefur sigrað heiminn. Niðurstaðan er að ef við lifum lífi okkar í Jesú, þar sem markmið okkar er að hans líf flæði í okkar lífi, þá sigrar hann heiminn í okkur. Það gerir lífið ekkert endilega léttara, þrengingar verða áfram. En þetta verður líf fyllt af nærveru hans og lifað í þeirri fullvissu að hann hefur síðasta orðið.

Ágúst Valgarð Ólafsson er höfundur þessa pistils. Gefðu þér tíma til að hlusta á predikun um þetta efni. Þar er margt til að uppörva og hvetja þá sem eru í erfiðum aðstæðum.

Hvernig við bregðumst við þrengingum hefur áhrif á hversu mikilli ábyrgð Guð getur treyst okkur fyrir og þar með að draumur Guðs fyrir okkar líf verði að veruleika.

Hér er annar pistill og umræðuspurningar um þetta efni.

Pin It

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Hvítasunnukirkjan á Selfossi