Þrengingar eru tækifæri til að líta upp

Skrifað af Gunnhildur Stella Pálmarsdóttir. Posted in Pistlar

Vandræði og erfiðleikar. Hver kannast ekki við það? Vandræði og erfiðleikar geta komið fram á margan hátt. Til dæmis ósætti í fjölskyldunni, slys, veikindi, fólk sem svíkur þig og svo mætti lengi telja.

Þrengingar

Sagan þín er einstök og okkar saga er ólík. En við eigum það eflaust sameiginlegt að hafa lent í einhverskonar þrenginum í lífi okkar. Ég hef upplifað þrengingartíma eins og það að ganga í gegnum völundarhús. Ég veit ekki hvernig ég kemst út úr völundarhúsinu en ég veit að ef ég lít upp og beini sjónum mínum til Guðs þá mun hann leiða mig rétta leið. Erfiðleikar hafa oft lífsbreytandi áhrif á líf okkar. Við þroskumst og karakter okkar breytist. Það hefði kannski verið auðveldara að ganga sléttu og beinu brautina en þrengingarnar eru oft það sem móta karakterinn okkar mest. Ein af mínum uppáhaldssetningum er þessi:

Leyfðu erfiðleikunum að gera þig betri, ekki bitrari.

Það er oft erfitt að heyra svona setningu þegar við erum stödd í stormi lífsins en staðreyndin er sú að sama hvað við erum að ganga í gegnum þá vill Guð vera með. Guð vill leiða okkur og gefa okkur þann styrk og kraft sem við þurfum á að halda og á meðan mótar hann karakter okkar og gerir okkur að betri og heilsteyptari manneskjum.

Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Frá draumi til veruleika.

Gunnhildur Stella Pálmarsdóttir er höfundur þessa pistils, smelltu hér til að horfa/hlusta á predikun frá henni um þetta efni.

Umræðuspurningar fyrir heimahópa

  1. Rifjaðu upp tímabili í þínu líf þar sem þér fannst þú ganga í gegnum þrengingar þar sem þér leið líkt og þú værir fastur í djúpri gryfju.
  2. Hvernig notar Guð þrengingar og gryfjur okkur til góða? Getur þú bent á slíka tíma í þínu lífi?
  3. Jafnvel í þrengingum getum við fundið huggun og von ef við hrópum til Guðs. Á hvaða mismunandi hátt huggar og hughreystir Guð okkur þegar við hrópum til hans?
  4. Í erfiðleikum, hvaða viðhorf í hjarta okkar auka líkurnar á því að við verðum bitrari? Eða, hvaða viðhorf í hjarta okkar auka líkurnar á því að við verðum betri? Sem dæmi, í erfiðleikum gerir það okkur sennilega bitrari ef við upplifum okkur sem fórnarlamb og allt sé öðrum að kenna.
Pin It

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Hvítasunnukirkjan á Selfossi