Við þurfum orð og ljós

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Ef þú setur orkumikið 5 ára barn inn í snyrtilegt herbergi mun óreiðan aukast hratt. Að lokum verður orðin alger óreiða í herberginu, ekkert þar sem það ætti að vera og barnið orðið úrvinda. Þetta er reyndar almenn regla í alheiminum: Allt rými, án utanaðkomandi áhrifa, hefur tilhneigingu til meiri óreiðu.

Það merkilega er að lífið hér á jörðinni fer í öfuga átt við þessa almennu reglu. Lífverur eru safn af stafrænum og skipulögðum upplýsingum, andstæða óreiðu. Lífverur eru orkubúnt eða toppar sem líka er í andstæðu við óreiðulögmálið því með vaxandi óreiðu jafnast orka út í alheiminum þangað til að lokum engir orku toppar eru lengur til heldur allt orðið flatt.

Í sköpunarsögu Biblíunnar sjáum við bæði óreiðu og upplýsingar.

1Mós 1:2-3 Jörðin var þá auð og tóm, og myrkur grúfði yfir djúpinu, og andi Guðs sveif yfir vötnunum. Guð sagði: "Verði ljós!" Og það varð ljós.

Jörðin er í óreiðu ástandi en Guð sendi orð sín, upplýsingar, eins og öldur yfir jörðina og með hverri öldu batnar skipulagið og fjöldi tegunda á jörðinni eykst. Hver einasta tegund er bunki af vandlega skipulögðum stafrænum upplýsingum. Án þessara upplýsinga þá væri ekkert líf og ekkert skipulag á sköpunarverkinu. Jesús er fullkominn upplýsingaveita frá Guði. Einn besti vinur Jesú, Jóhannes, segir bókstaflega að Jesús sé orð Guðs:

Jóh 1:1-3 Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð. (2) Hann var í upphafi hjá Guði. (3) Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans varð ekki neitt, sem til er.

Koma Jesú í þennan heim er því hluti af þessu ferli Guðs að skapa heiminn og koma skipulagi á sköpunarverkið, móta það til góðs.

Þetta tengist mér og þér þannig að við þurfum upplýsingar. Við höfum spurningar eins og:

  • Hver er ég?
  • Hvaðan kem ég?
  • Hvert er ég að fara?
  • Hvers virði er ég? Er von?
  • Get ég þegið fyrirgefningu fyrir þetta sem ég gerði?

Þessar og fleiri til eru spurningar sem við þurfum svör við til að líf okkar hafi tilgang, virði og merkingu. Mörg okkar hafa líka upplifað óreiðu í lífi sínu. Þessi óreiða hefur margar birtingarmyndir: Fíkn, leti, samskiptaerfiðleikar, þunglyndi, veikindi ofl. Í stuttu máli þegar líf okkar er ekki að verka sem skyldi eða eins og við virðumst vera hönnuð til. Það sem við þurfum þá er orð og ljós frá Guði. Orð til að fá svör við þessum spurningum og ljós og kraft til að hrekja myrkrið út, sjá hvernig hlutirnir eru í raun og veru og stíga inn í þá framtíð sem Guð hefur fyrir okkur.

Jesús kemur með þetta orð og ljós frá Guði. Með því að snúa okkur til hans og sækjast eftir honum tekur hann að móta líf okkar og skipta óreiðunni út fyrir frelsi, frið og bjarta framtíð.

Íhugun og framkvæmd

  1. Hefur þú upplifað Guð tala til þín þannig að óreiða víki fyrir skipulagi og friði? Segðu einhverjum frá ef þú ert í heimahóp eða næst þegar þú hittir góðan vin.
  2. Hversu mikið af orði Guðs hefur þú tekið inn í líf þitt með einhverjum hætti, t.d. hlusta eða lesa seinustu vikuna? Jesús sagði: Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði, heldur á hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni. (Mat 4:4). Það eru til margar leiðir til að taka orð Guðs inn. Ein leið er að lesa alltaf orð Guðs um leið og þú borðar. Prófaðu þig áfram þangað til þú finnur hvaða leið verkar best fyrir þig.

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Ágúst Valgarð Ólafsson predika um efni þessa pistils.

Pin It

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Hvítasunnukirkjan á Selfossi