Betri er tveir en einn
Betri eru tveir en einn, með því að þeir hafa góð laun fyrir strit sitt. (10) Því að falli annar þeirra, þá getur hinn reist félaga sinn á fætur Pred 4:9-10a
Falleg orð hjá predikaranum. En það getur líka verið áskorun því samfélag við aðra getur valdið núningi.
Að vera lærisveinn Jesú er að vera í samfélagi við aðra. Jesús kallað til sín 12 lærisveina og margir þeirra voru ólíkir. NT gefur nokkur dæmi um núning á milli þeirra. Tvisvar sinnum segir Lúkasarguðspjall frá því að lærisveinarnir hafi rætt sín á milli hver þeirra sé mestur. Fyrst ræða þeir þetta í Lúk 9:46, seinna skiptið er Lúk 22:24. Það seinna er reyndar sérstaklega sorglegt því það gerist þegar Jesús er að borða seinustu máltíðina með þeim, nokkru áður en hann er handtekinn, pyntaður og tekinn af lífi. Þetta voru mennirnir sem höfðu verið með Jesú í 3 ár. Ef Jesús kallaði þessa menn til að vera lærisveina og þeir fóru svo og breyttu heiminum, fylltir af anda Guðs, af hverju ekki ég og þú? Sannarlega voru þessir menn mannlegir og breyskir eins og við öll. Jesús getur og vill breyta okkur öllum þegar við þorum að stíga inn í samfélag við hann og hvert annað.
Kross Jesú bendir til himins og á samfélag okkar við Guð. En krossinn er líka láréttur. Í krossinum eigum við fyrirgefningu og getum gefið hana áfram til fólksins í kringum okkur. Án þess að geta fyrirgefið öðrum væri alvöru samfélag við aðra ómögulegt. Þess vegna lagði Jesú grunninn að samfélagi okkar sem erum lærisveinar hans með því að fara á krossinn og gera fyrirgefningu mögulega.
Tilhneiging okkar er að sleppa samfélaginu þegar það verður erfitt. Ef okkur er alvara um að vera lærisveinar Jesú þá þurfum við að taka samfélagið við aðra alvarlega. Við þurfum að fylgjast með viðhorfi okkar til annara og vinna úr því með Jesú ef okkur skortir kærleika. Við þurfum að eiga einhverja að sem við treystum og getum opnað líf okkar með því þá erum við heiðarleg og þar er vöxtur okkar sem lærisveina.
Íhugun og framkvæmd
- Nefndu dæmi þar sem þú varst þakklát(ur) fyrir að eiga vini eða fólk sem stóð þér nærri og hvað það gerði fyrir þig.
- Hvernig myndir þú lýsa þeim áskorunum sem þú hefur tekist á við í samskiptum við vini og fólk sem stendur þér nærri? Hvað er erfitt og reynir á í því?
- Áttu einhvern að sem þú treystir nógu vel til að geta verið mjög heiðarleg(ur) og opin(n) við? Ef langt er liðið síðan þú áttir seinast slíkt samtal skaltu koma því í kring að það gerist fljótlega.
Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Ágúst Valgarð Ólafsson predika um efni þessa pistils.