Vertu trú(r) í því smáa
Fyrstu fjörtíu ár Móse bjó hann við allsnægtir sem einn af yfirstéttinni í Egyptalandi en sökum þess að hann hafnaði ekki uppruna sínum og kom samlanda sínum til hjálpar þurfti hann að flýja Egyptaland og gerðist fjárhirðir í framandi landi.
Í fjörtíu ár vann Móse sem fjárhirðir og það var ekki fyrr en hann var um áttrætt að Guð opinberaði honum endandlegu áætlunina sem hann hafði með hann og í kjölfarið hófst samband Móse við Guð sem dýpkaði og varð nánara í þau fjörtíu ár sem hann átti eftir ólifað.
Eins og með Móse þá hefur Guð áætlun með líf okkar og til að við getum gengið inn í þá áætlun þá þurfum við að vinna af samviskusemi þá hluti sem Guð setur fyrir okkur. Guð notar oft það venjulega til að kenna okkur að verða þær manneskjur sem hann vill að við verðum og hann segir að sá sem er trúr í því smæsta, er einnig trúr í miklu, og sá sem er ótrúr í því smæsta, er og ótrúr í miklu. (Lúk. 16:10)
Eins og Móse þurfti að vinna sem fjárhirðir í fjörtíu ár til að Guð gæti gert hann að þeim manni sem hann varð, þannig er það einnig með okkur, við getum þurft að sinna mörgu sem okkur finnst oft ekki mikið til koma. En það getur vel verið að í þessum lítilfjörlegu hlutum að því er okkur finnst, þá sé Guð að kenna okkur og fá okkur á þann stað þar sem hann getur treyst okkur fyrir meiru. Við skulum því vera trú í því litla sem Guð fær okkur að gera þannig að hann geti notað okkur til enn stærri verka.
Íhugun og framkvæmd
- Trúir þú að Guð hafi áætlun með líf þitt? Ef já, veistu hvaða áætlun Guð hefur fyrir þitt líf?
- Myndir þú segja að samband þitt við Guð sé dýpra núna en fyrir ári síðan eða stendur það í stað eða hefur jafnvel dofnað?
- Ertu að gera eitthvað sem þér finnst vera þjónusta fyrir Guð?
- Hvaða þjónustu finnst þér Guð vilji að þú sinnir?
- Hvað getur þú gert til að dýpka samband þitt við Guð?
- Ertu að lesa í Biblíunni og biðja á hverjum degi?
Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Þorstein Jóhannesson predika „Vertu trú(r) í því smáa”