Í en ekki af
Sum efni getur líkami okkar ekki myndað sjálfur heldur verður hann að fá þau úr fæðunni. C-vítamín er gott dæmi. Eftir mánuð af fæðu með litlu eða engu C-vítamíni geta einkenni skyrbjúgs komið fram. Það var James Lind, skoskur skurðlæknir í breska flotanum sem fyrstur sýndi fram á hvernig hægt væri að lækna skyrbjúg með C-vítamínríkum ávöxtum eins og appelsínum og sítrónum. Hann tók 12 sjómenn á skipi sem hafði verið 2 mánuði á sjó og skipti þeim í 6 tveggja manna hópa. Allir voru þeir veikir af skyrbjúg. Lind gaf þeim öllum sömu grunnfæðuna en gaf svo hverjum hópi mismunandi fæðu til viðbótar við það. Einn hópurinn fékk tvær appelsínur og eina sítrónu sem viðauka og á aðeins 6 dögum voru þeir tveir nánast lausir við skyrbjúginn meðan hinir allir voru annaðhvort verri eða lítið skárri.
En þetta var ekki fyrsta rannsóknin. 2300 árum áður hafði Daníel gert rannsókn um áhrif fæðu. Konungur Babýloníu, Nebúkadnesar, hafði þá flutt Daníel og félaga hans um 1500 km leið frá Jerúsalem til Babýloníuborgar þar sem átti að móta þá í siðum og menningu sigurvegaranna. Aðferð konungs við að móta heilstætt ríki fól í sér að móta leiðtoga frá þeim þjóðum sem hann hafði sigrað, leiðtoga sem myndu hjálpa honum að móta hinar sigruðu þjóðir eftir þörfum sigurvegaranna. Babýlon var stærsta borg veraldar á þeim tíma og náði hátindi veldis síns á meðan Nebúkadnesar var konungur. Þar mátti líta gríðarmiklar byggingar umluktar 18 km löngum tvöföldum borgarmúr þar sem ytri múrinn var 7,5 metra þykkur. Fornleifafræðingar hafa áætlað að hálf milljón manna hafi búið í borginni og úthverfum hennar.
Daníel var örugglega innan við tvítugt og upplifði að vera fluttur af innrásarhernum burt frá fjölskyldu sinni og heimaborg, til stærstu og mikilfenglegustu borgar veraldar á þeim tíma. Það fyrsta sem Daníel segir okkur að hann hafi tekist á við á nýjum stað er hvað hann tekur inn, hvað hann borðar.
Í Babýloníu var mikil áhersla lögð á útlit. Útlit og ásýnd er talið fyrst upp sem markmið fyrir þá sem voru valdir til dvalar í Babýloníu (Dan 1.4). Daníel gerði sér grein fyrir því að ef hann tæki inn það sama og aðrir þá yrði hann eins og þeir. Hann hafði áður tekið þá ákvörðun að helga líf sitt Guði rétt eins og áhöldin sem Nebúkadnesar tók úr helgidómi gyðinga og setti inn í musteri síns guðs (Dan 1.2) höfðu verið helguð til þjónustu í musterinu í Jerúsalem. Til að vinna verk Guðs í erfiðum aðstæðum þarf fólk sem hefur mótað líf sitt til að vinna slík verk. Þetta er sambærilegt því að nota ekki klósettburstann í uppvaskið. Við notum auðvitað verkfæri sem hæfir verkinu.
Þeir sem hafa ákveðið að fylgja Jesú Kristi standa frammi fyrir sömu áskorun í dag. Jesús hefur sent okkur inn í þennan heim en hann ítrekar að við eigum ekki að vera af þessum heimi (Jóh 17.15-18). Rétt eins og Guð gaf Jerúsalem í hendur konungi Babýlonar og leyfði að Daníel væri fluttur til Babýloníuborgar en svo var það þessi sami Guð sem notaði Daníel til áhrifa þar. Daníel var í borginni en ekki af henni (Dan 1.19-20).
Rétt eins og við verðum að fá C-vítamín úr fæðunni til að fá ekki skyrbjúg þá má segja að við þurfum við að taka kross Jesú inn í líf okkar til að kross Jesú flæði útúr lífi okkar. Ef þú vilt breyta því sem er að koma útúr þínu lífi, byrjaðu þá á að breyta því hvað þú ert að taka inn um augun, eyrun, munninn og hverju þú leyfir hugsunum þínum að dvelja við. Við erum nefnilega það sem við tökum inn.
Íhugun og framkvæmd
Jak 1:22 Verðið gerendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess, ella svíkið þið ykkur sjálf (umorðað). Mat 7:26 En hver sem heyrir þessi orð mín og breytir ekki eftir þeim, sá er líkur heimskum manni, er byggði hús sitt á sandi.
- Það þarf ekki að vera, en hefur komið upp eitthvað nýlega í því sem er að koma útúr lífi þínu sem þú myndir óska að væri öðruvísi? Ef svo er, hvað? Ef það er eitthvað sem þú vilt breyta, skrifaðu það þá niður á blað, skrifaðu andstæðu þess þar við hliðina og biddu yfir þessu í nokkra daga. Andstæða væri að eiga kærleika í stað reiði, frið í stað kvíða o.s.frv Biddu Guð að sýna þér hverju þú gætir breytt í því sem þú ert að taka inn í líf þitt til að sjá breytingu í því sem er að koma út úr lífi þínu.
- Í lokin á predikuninni vitnaði ég í 1Pét 3.15a sem segir „En helgið Krist sem Drottin í hjörtum yðar.” og hvatti okkur til að gera ekkert án þess að rýna það fyrst með krossi Krists sem þarf að vera miðlægt í hjarta okkar. Hvaða áhrif hefur það eða gæti haft á þitt daglega líf að „helga Krist sem Drottinn” í hjarta þínu?
Höfundur: Ágúst Valgarð Ólafsson
Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir einfaldlega Daníel