Gott og illt er engin ímyndun

Hugur okkar er stöðugt að vinna úr upplýsingum og oft erum við að greina á milli þess hvað er gott og slæmt. Það er gott að Jói stökk út í sjóinn og bjargaði Gunna. En það er slæmt að veskinu hennar Ragnhildar var stolið o.s.frv.

En til að greina á milli góðs og ills verðum við að hafa einhverja línu sem greinir þarna á milli. Um leið og við segjum að eitthvað sé gott en eitthvað annað slæmt erum við að gera ráð fyrir því að þessi lína sem greinir á milli góðs og ills sé til.

Það er lína á milli góðs og ills

En hvaðan kemur þessi lína? Er þetta lína sem við búum til fyrir okkur sjálf og notum en er svo farin þegar við deyjum? Eða er þetta lína sem við uppgötvum og vísum til og var þá til áður en við fæddumst og verður alltaf til?

Notum stærðfræðina sem dæmi. Við vitum að 2 + 2 = 4. En er þetta eitthvað sem við bjuggum til eða uppgötvuðum? Jú, fyrir 500 milljón árum síðan voru 2 + 2 = 4 þó engin manneskja hefði nokkurntíman skrifað þetta niður eða reiknað. Það er þannig að tungumál stærðfræðinnar lýsir raunveruleikanum eins og hann er, ef við reiknum rétt!

Og þannig er þetta líka með gott og illt. Rétt eins og 2 + 2 = 4 þá eru sumir hlutir sannarlega góðir og annað sem er sannarlega illt. Verkfræðingar nota stærðfræði til að reikna burðarþol og þannig er stór brú byggð. Á sama hátt er ekki hægt að byggja gott mannlegt samfélag nema við getum vísað til þessarar línu sem greinir á milli hvað er gott og illt. Þetta vitum við innst inni og gerum ráð fyrir í okkar daglega lífi, svona er raunveruleikinn.

Þessi lína sem greinir á milli góðs og ills liggur beint til Guðs og er skilgreiningin á því hver Guð er. Jóhannes, sem var einn af lærisveinum Jesú, skrifar þetta í 1Jóh 1:15b: "Guð er ljós, og myrkur er alls ekki í honum.” Af því að Guð er bara góður og gerir okkur mögulegt að þekkja hann þá getum við þekkt muninn á góðu og illu.

Þessi pistill fjallar um siðferðisleg rök fyrir tilvist Guðs. Smelltu hér til að horfa á ágætt myndband á ensku um sama rökstuðning.

Til íhugunar og framkvæmdar

  1. Segðu frá atviki þar sem þú gerðir rangt og það sprakk í andlitið á þér, t.d. þegar þú laugst og það uppgötvaðist. Eða segðu frá tíma þar sem einhver laug að þér og það særði þig.
  2. Lesið og ræðið Róm 2:13-16. Hvernig hefur þú séð lögmálið í hjarta þínu hafa áhrif á líf þitt?
  3. Hvernig getum við þekkt vilja Guðs fyrir líf okkar? Hvernig getum við þekkt rétt frá röngu?
  4. Hvaða skref hjálpa þér að lifa lífi þínu í sannleika og heiðarleika?
  5. Hvaða afleiðingar myndi það hafa að lifa lífi sínu án þess virkilega að þekkja rétt frá röngu?  

Ágúst Valgarð Ólafsson er höfundur þessa pistils.

Pin It

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Hvítasunnukirkjan á Selfossi