Það var upphaf

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Þú stendur við lítið lygnt vatn, stenst ekki freistinguna og kastar myndarlegum steini áleiðis út í vatnið. Steininn myndar hringlaga öldur útfrá þeim stað þar sem hann lenti. Sumar öldurnar ná alla leið að bakkanum þar sem þú stendur. Ef þú vissir ekkert um steininn en sæir bara öldurnar þá vissir þú samt að eitthvað hefði komið öldunum af stað, annaðhvort vindur, steinn eða eitthvað annað. Ef þú sérð öldu koma að ströndinni á annað borð þá getur þú vitað fyrir víst að eitthvað kom upphaflegu öldunni af stað, og þetta eitthvað getur ekki sjálft verið alda.

Það var upphaf

Að skilja upphaf heimsins er ekki ólíkt þessu. Vísindamenn geta mælt áhrif miklahvells sem kom alheiminum af stað. Þeir hafa jafnvel mælt bergmálið af sprengingunni sem ómar ennþá um alheiminn. Þetta eru öldur miklahvells sem var upphaf alheimsins. Með miklahvelli varð allt rými til, efni varð til og tíminn varð til. Fyrir miklahvell var ekkert rými, enginn tími og ekkert efni. Útfrá þessu og öðru því tengdu getum við vitað ýmislegt um þetta eða þennan sem sprengdi miklahvell:

  • Til í sjálfum sér, tímalaus, án rýmis og efnislaus. Fyrst þetta sem sprengdi miklahvell skapaði rými, efni og tíma þá hlýtur þetta eitthvað að standa utan við rými, efni og tíma.
  • Óendanlega öflugt til að skapa alheiminn og allt efnið í honum úr engu.
  • Gríðarleg greind, til að skapa alheiminn með þeirri nákvæmni sem til þarf. Sem dæmi þá þurfti þyngdaraflið að vera stillt með gríðarlegri nákvæmni til að alheimurinn myndi ekki þenjast of hratt út, eða falla saman. Nákvæmnin er slík að ef þyngdaraflinu væri breytt þannig að þú væri einum milljarði úr grammi léttari eða þyngri hefði alheimurinn þanist of hratt út eða fallið saman svo jörðin okkar hefði aldrei orðið til. 
  • Persónuleg og vitræn því ópersónulegt afl hefur enga getu til að velja eitt framyfir yfir annað. Í alheiminum sjáum við að úr engu hefur rými með tíma og efni verið mótað. Það er ekki hægt nema eitt sé valið framyfir annað.

Núna í september erum við með ræðuröð sem heitir Guð er ekki dáinn. Við erum að fjalla um rökstuðning fyrir tilvist Guðs en um leið opna á umræðu um þetta með því að bjóða þér að senda okkur spurningar. Einnig verður í einhverjum tilfellum hægt að horfa á predikanir beint á Facebook síðunni okkar um kl.11:40 á sunnudagsmorgnum í september. Fylgstu með og taktu þátt í umræðunni. Við viljum gjarnan heyra frá þér. 

Ágúst Valgarð Ólafsson er höfundur þessa pistils.

Til umræðu eða íhugunar

  1. Erum við neydd til að velja annaðhvort vísindi eða trú - eða er hægt að líta öðruvísi á málin? Er t.d. hægt að vera trúaður en samt treysta líka vísindum með tiltekna hluti?
  2. Ímyndaðu þér að við hefðum enga Biblíu. Hversu mikið væri hægt að vita um Guð með því að skoða upphaf heimsins, sköpunarverkið og því að hugsa rökrétt?
Pin It

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Hvítasunnukirkjan á Selfossi