Jarðneskt líf með frábæra framtíð

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

„Ekkert er öruggt í heiminum nema dauðinn og skattar.” Orð eftir Christopher Bullock sem Benjamín Franklin gerði svo fræg.

Ég sem þetta skrifa er núna 42 ára gamall. Uppbyggingu æskunnar er lokið og við tekur hrörnun. Ég mun gera mitt besta til að halda líkama mínum hraustum og ef Guð lofar get átt hraustann líkama í tugi ára en einn daginn hættir líkaminn og virka og líf mínu hér á jörðinni lýkur.

Kannist þið við þetta vandamál að lifa eins og þetta skammvinna jarðlíf sé allt og sumt? Að hlaða undir sig og eiga virði sitt og sjálfsmynd í þessum líkama sem er ekki ætlað að bera slíkt uppi heldur er ætlað að hjálpa okkur að ljúka þessu ferðalagi og komast heim?

  • Unga konan sem notar útlitið til að tjasla upp á laskaða sjálfsmynd.
  • Hvað með miðaldra verkfræðinginn sem kaupir sér gullkeðju og sportbíl, skilur við konuna sína og kaupir sér ferð til Thailands?
  • 13 ára stúlkan sem málar sig á hverjum degi fyrir skólann, hefur áhyggjur af því alla morgna hvaða föt hún á að velja og kvíður því stöðugt hversu margir svara nýja snappinu hennar?

Um 22 árum eftir að Jesús var krossfestur skrifaði Páll postuli þetta í bréfi til kirkjunnar í Korintuborg:

Við vitum að þegar tjaldið sem við nú búum í, okkar jarðneski líkami, verður fellt, en það gerist þegar við deyjum, þá munum við fá nýja líkama á himnum, bústað sem endist okkur um alla eilíf. Sá bústaður verður ekki gerður af manna höndum, heldur af Guði sjálfum. (2Kor 5:1 Lifandi Orð)

Þessi nýji líkami á himnum verður líkami sem eldist ekki, hrörnar ekki og endist að eilífu. Jesús fékk svona líkama eftir upprisuna (sjá t.d. Jóh 20:20-30, Lúk 24:39-43).

Líkami okkar hér á jörðu er eins og tjald. Tjald er ekki endanlegur bústaður heldur það sem við notum til að komast á áfangastað, til að komast heim er það ekki?

Að byggja virði sitt og sjálfsmynd á þessum skammvinna líkama er eins og að grafa sér gröf í stað þess að undirbúa framtíðina.

Forðumst að treysta um of á líkama okkar en spyrjum okkur frekar með allt sem við tökumst á hendur: Hjálpar þetta mér að komast heim? Eða, hjálpar þetta öðrum að komast heim?

Íhugun og framkvæmd

  • Hvaða tilfinningar hefur þú gagnvart því að einn daginn hætti líkami þinn að virka og þú yfirgefir allt sem þér er kært hér á jörðu?
  • Páll segir í 2Kor 5:10 að allir muni koma fyrir dómstól Krists. Dómstóll er að stöðva allt illt. Ef þú kæmir fyrir dómstól Krists í kvöld, hvernig heldur þú að það uppgjör myndi koma út?

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Ágúst Valgarð Ólafsson predika um efni þessa pistils.

Pin It

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Hvítasunnukirkjan á Selfossi