Sterkasta sönnunin um Guð
Efast þú um tilvist Guðs? Finnst þér erfitt að trúa á tilvist ósýnilegs Guðs? Eða er erfitt að trúa á almáttugan og góðan Guð á sama tíma og við sjáum svona mikið illt í heiminum? Sterkasta sönnunin fyrir tilvist Guðs er einmitt sú staðreynd að við mennirnir getum spurt og rökrætt spurningar eins og þessar.
Sjáðu til, ef það er enginn Guð til þá er öllu stjórnað af náttúrulögmálum. Reyndar má þá spyrja hvaðan náttúrulögmálin koma, en það er efni í annan pistil. Heimurinn er þá efni, efnahvörf og atburðir sem allt stjórnast af náttúrulögmálum og engu öðru. Segjum að ég sé að spjalla við kunningja minn að nafni Jón sem er sannfærður um að Guð sé ekki til. Í heimi Jóns er enginn Guð. Jón trúir því að hann sjálfur sé til vegna þess að einhvern veginn kviknaði líf á jörðinni (hann veit ekki hvernig). Fyrst var það e.t.v. einfrumungur. Þessi fruma þróaðist í einföld dýr sem svo þróuðust í fullkomnari dýr þangað til Jón loks fæddist. Allt þetta ferli og öll stig þess er 100% ákvarðað af náttúrulögmálum og náttúruvali. Þeir sterkustu lifa af og allt það. Ef Jón nú segir að uppáhalds liturinn hans sé rauður, þá er jafnvel það val hans einnig ákvarðað af náttúrulögmálum ekki satt? Auðvitað finnst honum að hann hafi sjálfstæða hugsun en það er aðeins tálsýn.
Ef heimurinn er ekkert nema efni, atburðir og náttúrulögmál, hvar er þá pláss fyrir raunverulega valkosti mannsins eða sjálfstæða hugsun? Jón er því í vissum vanda. Ef hann segir við mig: “Guð er ekki til” þá myndi ég spyrja hann á móti: “Viltu að ég taki þig alvarlega?”
Ef Jón játar þeirri spurningu er hann kominn í mótsögn við eigin heimssýn því í guðlausum heimi hefur maðurinn enga sjálfstæða hugsun eða valkosti því bókstaflega ÖLLU er stjórnað af náttúrulögmálunum. Það er EKKERT annað en náttúrulögmál og efni í guðlausum heimi.
Og auðvitað er ekki valkostur að svara spurningunni neitandi. Jón gerir réttilega ráð fyrir því að í eðlilegum samskiptum sé hann tekinn alvarlega og einmitt með því bendir líf hans á tilvist Guðs.
Það er rétt að taka það fram að þessi grein snertir á efni sem hefur verið mikið rætt: Hefur maðurinn frjálsan vilja? Það eru til margvísleg rök bæði hjá guðleysingjum og þeim sem trúa á tilvist Guðs. Heilt yfir finnst mér rökin hér að ofan þau mest sannfærandi sem ég hef séð en vil gjarnan heyra frá þér ef þú hefur innlegg í umræðuna.