Að vera með Jesú
Flest okkar þekkjum einhvern mjög vel, það samband hefur alveg örugglega ekki gerst af sjálfum sér heldur höfum við varið tíma sama og þannig öðlast nánd og góða þekkingu á viðkomandi og hann á okkur. Flest okkar kannast líka við ýmsa í kringum okkur, það geta verið nágrannar,vinnufélagar eða einhverjir frægir í samfélaginu. Við vitum etv. margt um viðkomandi en getum ekki sagt að við þekkjum hann vel.
Því miður er það stundum þannig líka með samband fólks við Jesú, ótal margir vita margt um hann, hafa hlustað á predikanir, sungið um hann söngva, jafnvel beðið til hans en þegar betur er að gáð eiga ekki nánd og samfélag við hann, þekkja hann ekki að eigin raun heldur aðeins af afspurn.
Jesús þráir að eiga samfélag og nánd við þig, hann þráir að þið þekkist, ekki eingöngu af afspurn heldur í raun of veru. Eina leiðin til að kynnast einhverjum og byggja upp nánd er að verja með honum tíma. Við getum lesið um það í guðspjöllunum hvernig Jesú tók sér reglulega tíma til að verja með föður sínum í einrúmi og næði. Fyrst Jesú gerði það ættum við örugglega að gera það líka.
Áreitið í nútíma samfélagi er mikið og hratt þar sem sótt er að úr öllum áttum, flýtir er harður húsbóndi sem rænir fljótt orku og fókusi okkar. Dallas Willard guðfræðingur og heimspekingur sagði flýtiveikina vera líkt og faraldur í samfélögum í dag. Hann hvatti til þess að fólk myndi miskunnarlaust keppast við að eyða flýti úr lífi sínu því flýtir væri mesti óvinur andlegslífs. Til að kynnast Jesú og eignast djúpt og innilegt samband við hann þurfum við að velja það að verja tíma með honum, æfa okkur í að sleppa tökunum sem við viljum hafa sjálf á öllum hlutum og leyfa honum að starfa á sinn hátt og á sínum tíma. Ef við gerum það fara yndislegir hlutir og vöxtur að gerast í lífi okkar.
Sálmur 46:11 hvetur okkur í þessum efnum: Verið kyrrir og viðurkennið, að ég er Guð.
Íhugun og framkvæmd
- Kannastu þú við að flýtir og hraði eigi það til að einkenna líf þitt ? Hvað getur þú gert til að hægja á þér?
- Hvernig telur þú þig þekkja Jesú?
- Ertu að verja tíma með Jesú þar sem hann fær að starfa óhindrað?
Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta á Dagbjörtu Eiríksdóttur predika um efni þessa pistils.