Æfingin skapar meistarann

Ástundun er nauðsynleg í öllu því sem við viljum ná árangri í til dæmis atvinnu, hlaupa maraþon, læra á hljóðfæri og svo framvegis en hvað með trúargöngu okkar? Er ekki nóg að Jesús fyrirgefi okkur syndir okkar? Þurfum við eitthvað að breytast? Þurfum við eitthvað að vaxa í trúnni?

Æfingin skapar meistarann

Í Efesusbréfinu 4:15 segir að við eigum að „vaxa í öllu upp til hans, sem er höfuðið, Kristur“. Með öðrum orðum þá er vaxtarmarkmið okkar að líkjast Jesú og það verður ekki nema með ástundun og þjálfum. Það er mikilvægt að skilja að þótt trúarleg þjálfun krefjist aga af okkar hendi, við verðum jú að gefa af tíma okkar, þá getur þjálfunin og sannarlega ávextir hennar verið ánægjuleg veitir okkur meiri lífsfyllingu. Við erum jú að æfa okkur í að nálgast Guð sjálfan sem er uppspretta alls þess sem er gott, góðra tilfinninga, gleði og ánægju. Það eru nokkrar æfingar sem eru nauðsynlegar og þurfa að vera í lífi okkar til að við náum að vaxa eðlilega.

Það fyrsta er að lesa og hugleiða ritninguna (Biblíuna). Jesús gekk út frá því að Biblían segði til um hver Hann væri og að Hann væri kominn til að uppfylla ritningarnar. Jesús vitnaði til ritninganna varðandi hvað væri rétt og rangt. Fyrst Jesú trúði ritningunum og byggði þjónustu sína á þeim þá þurfum við einnig að gera það og til þess þurfum við að lesa í Biblíunni. Við þurfum að gera það reglulega á hverjum degi til að við vitum vilja Guðs og lærum að þekkja hann betur.

Einvera og bæn er önnur æfing sem við verðum að ástunda. Jesús leitaðist sífellt eftir því að fara afsíðis til að eiga samfélag við Guð. Hann leitaði í einveruna, bænina og samfélagið við Guð. Þetta þurfum við líka að gera, við verðum að eiga stundir ein í bæn með Guði þar sem er ekkert áreiti og þar sem við getum beðið það sem er á hjarta okkar og hlustað eftir því hvað Guð hefur við okkur að segja. Á þessum stundum lærum við að þekkja röddu Guðs og fáum leiðbeiningu hans.

Við þurfum að vera í samfélagi við annað trúað fólk til að við getum vaxið. Til að við getum vaxið þurfum við að sleppa hlutum sem hindra vöxt. Þessir hlutir geta verið margvíslegir brestir eins og óreiða í fjármálum, áhyggjur, skapgerðabrestir, ótti, vanmáttur, stjórnleysi og allt sem á einhvern hátt getur bundið okkur. Guð vinnur þannig að hann vill hreinsa okkur til að við getum vaxið meira. Hann gefur okkur anda sinn til leiðbeiningar, huggunar og visku. En hann gefur okkur annað fólk til að styðja okkur og leiðbeina. Í Jakobsbréfi 5:16 stendur, „Játið því hver fyrir öðrum syndir yðar og biðjið hver fyrir öðrum, til þess að þér verðið heilbrigðir,, Til þess að við getum verið andlega heilbrigð þá þurfum við á hvert öðru að halda.

Höfundur: Þorsteinn Jóhannesson. Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Af heilum hug

Til umræðu eða íhugunar

  1. Ert þú að lesa í Biblíunni? Hvenær og hvernig lest þú?
  2. Átt þú stundir í einveru og bæn (lýstu)? .
  3. Átt þú kristinn trúnaðarvin og ástundar þú það sem Jakobsbréfið 5:16 boðar?

Í bókinni "Af heilum hug" eru mjög góð verkefni og spurningar úr þessu efni. Bókina er hægt að nálgast í flest öllum Hvítasunnukirkjum. Sendu okkur línu ef þig vantar eintak eða komdu í heimsókn.

Hlusta á kennslu

Pin It

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Hvítasunnukirkjan á Selfossi