Að höndla völd vel

Þegar vel fer að ganga hjá okkur og við fáum einhver völd eða áhrif, hvernig notum við þá völdin? Notum við þau eingöngu fyrir okkur sjálf, snúast völdin um okkar sérhagsmuni?

Að höndla völd vel

Eitt af þeim prófum sem við þurfum að standast til að við getum að fullu gengið inn í áætlun Guðs er hvernig við höndlum vald. Þetta próf, eða „Valda prófið“, gengur út á hvernig við bregðumst við þegar góðir hlutir mæta okkur, þegar okkur gengur vel, þegar við erum hækkuð í tign eða áhrif okkar og völd aukast.

Það hvernig við bregðumst við velgengni skiptir verulegu máli varðandi framtíð okkar, vegna þess að Guð vill að við förum vel með það vald og þau áhrif sem okkur eru gefin. Þess vegna prófar Guð okkur þegar okkur gengur vel, hvort hann geti treyst okkur fyrir valdi.

Samkvæmt Biblíunni þá erum við sköpuð í mynd almáttugs Guðs sem hefur allt vald, þannig að eftirsókn eftir valdi er ekki slæm svo framarlega sem hún er á réttum forsendum. Guð notar vald sitt til að hjálpa fólki og hann vill deila valdi sínum með þeim sem nota það í sama tilgangi. Allt vald og allur auður er í hendi Guðs en hann vinnur í gegnum fólk og leitar að fólki sem hann getur treyst til að nota vald sitt á sama hátt og hann notar það.

Í fyrra Pétursbréfi 5:5-6 stendur:

Guð stendur gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð. Auðmýkið yður því undir Guðs voldugu hönd, til þess að hann á sínum tíma upphefji yður.

Vegurinn til valda er því að auðmýkja sig undir Guðs vilja og forðast allan hroka og dramb því Guð stendur gegn dramblátum. Þegar við erum trúföst og Guð eykur völd okkar og áhrif þá er það vegna þess að hann vill hjálpa fólki og hann vill að við notum þessi völd okkar og áhrif til að hjálpa því fólki.

Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Frá draumi til veruleikaÞorsteinn Jóhannesson er höfundur þessa pistils.

Umræðuspurningar fyrir heimahópa

  1. Hvað gengur valda prófið út á?
  2. Hvað er vald, hvaðan kemur það, hver ákvarðar hver fer með valdið?
  3. Guð er almáttugur og við erum sköpuð í hans mynd. Þess vegna er löngun í völd ekki röng ef forsendurnar eru réttar. Hvernig samræmist þessi hugmynd því sem þú hefur haldið eða verið kennt?
  4. Hver er munurinn á raunverulegri auðmýkt og falskri auðmýkt?
  5. Hefur þú einhvertímann farið illa með vald þitt? Hvernig leið þér og hvernig líður þér núna varðandi það?
  6. Hvaða vald eða áhrif ferð þú með núna? Hvernig ætlar þú að vera undirgefinn Guði og öðrum meðan þú ferð með þetta vald eða ábyrgð?

     

Hlusta á kennslu

Pin It

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Hvítasunnukirkjan á Selfossi