Það sem á huga minn á líf mitt
Ég hef alltaf haft áhuga á því að sjá líf mitt og annarra breytast til góðs. Frá því stuttu eftir að ég gafst Jesú hef ég þráð að líf mitt breyttist og yrði líkara hans. Ég hef þráð vöxt í lífi mínu þannig að það einkennist af kærleika og skapgerðarstyrk en sé laust við pirring og veikleika. Það fór mikið í taugarnar á mér að líf mitt færi upp og niður í stað þess að vaxa stöðuglega í kærleika Guðs.
Það voru einfaldlega vandamál innra með mér, vandamál sem héldu áfram að dúkka upp hér og þar. Ég tókst á við þessa spurningu: Hverning breytist fólk og hvernig get ég breyst?
Svo er það hjónabandið. Ef þú ert ein(n) og finnst lífið ganga nokkuð vel, þú ert með allt á hreinu og fá vandamál í samskiptum við annað fólk, prófaðu þá að gifta þig! Sjáðu hvernig gengur þegar þú býrð með öðrum einstakling sem sér allar þínar hliðar, líka þær dökku sem þú vilt ekki að nokkur sjái.
Ef Kristni er sönn þá erum við í grundvallaratriðum ófær um að breyta okkur sjálfum hjálparlaust. Jesús kom til að gera dautt fólk lifandi og gefa svo þeim sem fylgja honum líf í fullri gnægð.
Páll postuli útskýrir hvernig þetta virkar í þriðja kafla bréfs síns til kirkjunnar í Kólossu.
Fyrst þér því eruð uppvaktir með Kristi, þá keppist eftir því, sem er hið efra, þar sem Kristur situr við hægri hönd Guðs. (2) Hugsið um það, sem er hið efra, en ekki um það, sem á jörðinni er. (3) Því að þér eruð dánir og líf yðar er fólgið með Kristi í Guði. (Kól 3:1-3)
Páll segir að við eigum að velja hvað við hugsum um. Eitt það öflugasta sem við eigum er að geta valið hvað við hugsum um. Það sem fær mest rými í huga okkar mun móta líf okkar.
Veljum að setja traust okkar á Jesú með allt okkar líf, temjum okkur svo að láta huga okkar dvelja við hann og leitumst við að gera ekkert án þess að hugur okkar sé fyrst hjá Jesú, þá mun það móta líf okkar eins og Páll lýsir í Kól 3. Jesús fyrst og allt annað fylgir á eftir.
Íhugun og framkvæmd
Taktu þrjár min., þrjú næstu kvöld og skrifaðu niður það þrennt sem fékk mest pláss í huga þínum þennan daginn. Á degi 4. skaltu skoða listann og íhuga hvað fær mest rými í huga þínum. Fyrsta skrefið er að horfast í augu við stöðuna eins og hún er. Ef þú vilt gefa Jesú meira rými í huga þínum eru til fjölmargar leiðir til þess. Prófaðu ýmislegt og finndu út hvað virkar best fyrir þig. Hafðu samband ef þig vantar tillögur.
Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Ágúst Valgarð Ólafsson predika um efni þessa pistils.