Guðs er valdið

Hvað myndir þú gera ef snákur skriði eftir stofugólfinu þegar þú kemur heim einn daginn? Þrátt fyrir að þú myndir teljast dýravinur er ólíklegt annað en að þú vildir losna við hann úr út húsinu. Ef hann yrði ekki fjarlægður myndi nærvera hans skerða frelsi þitt á heimilinu, þú yrðir að gæta þess að rekast ekki á hann til að verða ekki bitinn.

Sennilega eru flestir þeirrar skoðunar að vilja ekki hafa óværu í húsakynnum sínum, þegar þeirra er vart myndi meindýraeyðir vera kallaður til hið snarasta. Þeir sem búa í löndum þar sem snáka er að finna vita að þeir eru slóttugir og reyna gjarnan að lauma sér inn um opna glugga og dyr á húsum, því er mikilvægt að gæta vel að því að allt sé lokað.

Eins er það með okkar andlega líf og húsakynni, viljum við að þar sé óværa sem heftir frelsi okkar á einhvern hátt? Biblían er mjög skýr á því að barist er um líf okkar, að djöfullinn er raunverulegur og kemur aðeins til að stela, slátra og eyða.

Góðu fréttirnar eru þær að sá er meiri sem í okkur er en sá sem er í heiminum. Sigur yfir hinum vonda er nú þegar í höfn svo það er ekkert að óttast. Guð hvetur sitt fólk til að styrkjast í Drottni til að geta staðist vélabrögð djöfulsins.

Verst er að afneita tilveru hans, það gefur honum óhindrað færi og er líkt og opinn gluggi eða dyr inn í líf okkar. Mikilvægt er að finna jafnvægi hér á milli, ekki afneita honum en á sama tíma ekki vera ofur upptekin af honum heldur.

Jesú er góði hirðirinn sem gætir sauða sinn sem þekkja röddu hans frá öðrum röddum og láta ekki blekkjast. Það er mjög mikilvægt að við þekkjum röddu og karakter Guðs til að geta fylgt honum, það gerist aðeins með því að verja tíma með honum og dvelja í orði Guðs.

Íhugun og framkvæmd

  1. Er eitthvað í lífi þínu sem þú hefur ekki náð sigri yfir? Brestir sem þú dettur í aftur og aftur, nærð ekki tökum á?
  2. Hefur þú athugað markvisst hvort í þínu lífi reynist opinn gluggi eða hurð sem gefur óvininum greiða leið?
  3. Hvað er þú að gera til að þekkja röddu Jesú, góða hirðisins? Hversu vel finnst þér þú þekkja röddu hans?
  4. Hvað finnst þér um þær góðu fréttir að meiri er sá sem er í þér en sá sem er í heiminum? Hefur þú reynslu af því?

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Dagbjört Eiríksdóttir predika um efni þessa pistils.

Pin It

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Hvítasunnukirkjan á Selfossi