Aldrei ein(n)
Vilborg Arna kleif hæsta tind veraldar fyrst íslenskra kvenna. Í viðtali við morgunblaðið nefndi hún tvö atriði sem stæðu uppúr. Annað var að hafa náð að klára í þriðju tilraun. Hitt var vinátta hennar og sjerpans Tenji sem var með henni í ferðinni. „Ég kem heim með alveg ómetanlega vináttu í farteskinu. Mér þykir eiginlega vænst um það,“ segir Vilborg Arna. Vinátta og samkennd er með því sterkasta sem við getum upplifað.
Á hinn bóginn eru einmanaleiki og einangrun meðal stærstu vandamála mannkynsins. Freddie Mercury öðlaðist heimsfrægð sem söngvari breska bandsins Queen. Hann sagði í viðtali 1985: „Þú getur átt alla þá hluti og eignir sem hægt er að ímynda sér en samt verið altekinn einmanaleika og þetta er bitrasta gerð einmanaleika. Velgengni hefur gert mig að átrúnaðargoði og fært mér milljónir punda. En um leið hindrað mig í að eignast það sem við öll þurfum: Kærleiksríkt og viðvarandi samfélag.”
Seinustu orð Matteusarguðspjalls eru (umorðað): Sjá ég er með ykkur alla daga, allt til enda veraldar.
Jesús segir þessi orð á hæð í Galíleu eftir upprisuna við þá 11 lærisveina sem voru eftir. Lærisveinarnir vissu að það að fara og gera allar þjóðir að lærisveinum myndi þýða svipuð örlög fyrir þá marga eins og þau sem Jesú hlaut fyrir sitt líf: höfnun, þjáningu og dauða. Það er eins og Jesú segi við þessa vini sína: Þið munuð fara og segja frá mér og gera aðra að lærisveinum mínum. Þetta verður erfitt, en ég verð með ykkur alla daga. Þið eruð ekki og verðið ekki einir.
Fyrir nokkrum árum gekk ég í gegnum erfiða tíma þar sem ég var svo aðkrepptur að innan að ég gat ekki einu sinni beðið. Í þessu ástandi ákvað ég að fara einn inn í herbergi, fjarlægja allar klukkur og leita Guðs þar til ég fyndi að nóg væri komið. Ég las upphátt úr sálmunum því ég gat ekki beðið með eigin orðum. Loks fann ég að eitthvað fór af stað, ég skynjaði óljóst nærveru Guðs. Guð hreyfði við hjarta mínu, gerði eitthvað. Ég fór breyttur út úr herberginu, ekki af því að neitt hefði breyst í aðstæðum mínum heldur vegna þess að ég vissi að Guð var til staðar. Ég var ekki einn.
Íhugun og framkvæmd
- Hefur þú eða ert þú að takast á við einmanaleika og einangrun? Hvernig myndir þú lýsa líðan þinni á þeim stað ef svo er?
- Hefur þú upplifað samkennd og vináttu? Hvaða áhrif hafði það?
- Lestu og íhugaðu Sálm 23. Taktu þér góðan tíma til að lesa sálminn oft yfir og sjá textann myndrænt fyrir þér. Getur þú rifjað upp tilvik í lífi þínu þar sem þú lést leiðast af Jesú eða önnur þar sem þú fórst þínar eigin leiðir?
- Aftur að Sálmi 23, hvað getur þú gert í lífi þínu til að leyfa Jesú sem best að vera hirðir í lífi þínu, eins og Davíð segir í upphafi sálmsins: Drottinn er minn hirðir? Ef þú ert í félagslegri einangrun þá biddu Guð um hjálp en leitaðu líka eftir tækifærum til að vera innan um annað fólk. Í þessari kirkju bjóðum við öllum sem vilja að koma í heimahópa sem hittast 2-4 sinnum í mánuði. Sendu okkur línu ef þú hefur áhuga á því að heimsækja heimahóp.
Höfundur: Ágúst Valgarð Ólafsson
Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Farið, gerið, skírið og kennið Ef þessi orð byggðu þig upp þá smelltu á Deila hér fyrir neðan til að fleiri byggist upp.