Látum fyrirgefningu Guðs flæða inn í tengsl okkar við aðra
Ekki er það gott að maðurinn sé einn. (1Mós 2.18)
Það eina sem ekki var gott við sköpunina í upphafi var það að maðurinn skyldi vera einn. Við erum hönnuð til að vera í heilbrigðu samfélagi við aðra.
Eftir að Adam og Eva borða ávöxtinn og tengingin við Guð rofnar þá rofna líka tengingar á milli bræðra. Bræður eiga með réttu að standa saman og gæta hvor annars.
Abel tilbiður Guð eins og vera ber með því að játa syndir sínar og horfast í augu við að syndin kostar líf (sjá 1Mós 3.21 og 4.4-5). Kain sættir sig ekki við þetta og drepur bróður sinn af öfund yfir þessu.
Syndin einangrar og rof við Guð leiðir til rofs við aðra. Rannsóknir sýna að félagsleg einangrun er vaxandi vandamál.
Fjöldi bandaríkjamanna sem segjast vera einmana var 20% árið 1980 en var komið upp í 40% árið 2016.
Rannsóknir sýna að þeir sem búa við félagsleg einangrun:
- Sofa verr
- Hafa veikara ónæmiskerfi
- Hafa meira af streitu hormónum í líkama sínum
Ein nýleg rannsókn leiddi í ljós að líkur á hjartaáfalli aukast um 32% hjá þeim sem eru félagslega einangraðir.
Jesú talaði sérstaklega um mikilvægi þess að fyrirgefningin sem við þiggjum frá Guði flæði áfram.
Sértu því að færa fórn þína á altarið og minnist þess þar, að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér, (24) þá skaltu skilja gjöf þína eftir fyrir framan altarið, fara fyrst og sættast við bróður þinn, koma síðan og færa fórn þína. (Mat 5.23-24)
Jesús segir að tenging okkar við Guð eigi að sjást í viðleitni okkar til að tengjast og fyrirgefa öðrum. Jesús segir meira að segja að það eigi að hafa forgang að leita sátta við meðbræður okkar. Það þýðir ekki að við þurfum að vera bestu vinir allra eða velja að verja tíma með öllum - en það þýðir að okkur ber að leiðrétta viðhorf okkar til allra. Okkur ber að viðurkenna syndir okkar (smbr. fórn Abels 1Mós 3.21 og 4.4-5), meðtaka fyrirgefningu Guðs og leyfa svo þessu flæði fyrirgefningar að flæða áfram inn í tengsl okkar við aðra.
Höfundur: Ágúst Valgarð Ólafsson. Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Biðjið og yður mun gefast.
Til umræðu eða íhugunar
- Hefur þú tekið eftir því í lífi þínu hvernig syndin hefur tilhneigingu til að rjúfa tengsl við annað fólk? Taktu dæmi.
- Veistu til þess að einhver sé ósáttur við þig núna eða hugsi þér þegjandi þörfin? Hvernig vill Guð að þú bregðist við?