Andleg barátta

Biblían segir okkur að andleg barátta sé háð um líf okkar. Með krossdauða Jesú sigraði hann þá baráttu í eitt skipti fyrir öll. Þeir sem velja að taka á móti honum sem frelsara sínum tilheyra sigurliðinu, eiga sigur fyrir Jesúblóð* og þurfa ekkert að óttast.

Með krossdauða Jesú sigraði hann

Jesús er vegurinn sannleikurinn og lífið, hamingjuleiðin, en óvinurinn mun gera allt sem í hans valdi stendur til að koma í veg fyrir að menn lifi lífi sínu frjálsir og í þeirri fullu gnægð sem Jesú lofar. Andleg barátta þeirra sem tilheyra Jesú gengur út á að brjóta niður þá andlegu múra sem óvinurinn hefur byggt upp og eru til þess ætlaðir að halda fólki frá sannleikanum, til að halda fólki í fjötrum fíknar, lyga, óheiðarleika og bresta.

Þegar Satan freistaði Jesú (sjá t.d. Lúk 4) svaraði hann honum með orði Guðs það var hans sterkasta vopn. Því er það mikilvægt að þekkja orð Guðs hvað það segir og kennir því enn í dag er það sterkasta vopnið.   

Annað sterkt vopn í þessari andlegu baráttu er bænin, Jesú bað mikið því hann þekkti mátt bænarinnar. Með bæninni fáum við kraft Guðs til að sigrast á skeytum óvinarins. Jakobsbréfið segir okkur að kröftug bæn réttláts manns megni mikið (Jak 5:16), krafturinn er ekki okkar eigin heldur gefinn af Guði. 

Þrátt fyrir að tilheyra Guði kemur það ekki í veg fyrir árásir óvinarins. Ef kristinn einstaklingur daðrar við syndina eða leyfir henni að viðgangast þá opnar hann dyr í lífi sínu fyrir áhrifum óvinarins sem getur skaðað eða fjötrað viðkomandi. Jesú er sá eini sem getur losað slíka fjötra.

Það er mikilvægt að vera vakandi yfir því að hvergi í lífi okkar séu opnar dyr fyrir óvininn að nýta sér til að reyna að eyðileggja líf okkar og ræna því frelsi sem Jesús gefur. Það getur verið ótal margt sem heldur opnum dyrum og veikir stöðu okkar og greiðir götu fyrir óvininn, dæmi um slíkt eru t.d. stolt, óheiðarleiki, lygi, klám ofl. Við þurfum að gæta þess að loka öllum dyrum að lífi okkar sem óvinurinn gæti notað til að reyna að fella okkur. Það gerum við með því að játa syndir okkar fyrir Guði og biðja Jesú að fyrirgefa okkur.

Guð gefur okkur einnig annað verkfæri sem er að játa syndina fyrir annarri manneskju.

Játið því hver fyrir öðrum syndir yðar og biðjið hver fyrir öðrum, til þess að þér verðið heilbrigðir. Jakobsbréfið 5:16

Það er leyndardómur í að játa fyrir annarri manneskju, það setur glímu okkar sem hefur verið í myrkri í ljósið og þar með missir það kraft sinn (sjá t.d. 1Jóh 1). 

Biblían ítrekar að baráttan sem við eigum sé ekki við menn af holdi og blóði heldur andaverur vonskunnar í himingeimnum (Ef 6:12). Verum viðbúin vopnuð orði Guðs og bæninni og örugglega hvergi með opnar dyr í lífi okkar sem gefur óvininum færi. 

Höfundur: Dagbjört Eiríksdóttir

* Með Jesúblóð er átt við að Jesú gaf líf sitt á krossi og fyrir það eigum við sigur. Sjá t.d. Róm 5:9, Ef 1:7 og 2:13

Til umræðu eða íhugunar

  1. Veist þú hvað andlega barátta er eða hefur þú kynnst slíku? Ef svo, hvernig?
  2. Hvað finnst þér um hvernig t.d. stolt getur verið opnar dyr fyrir óvininn? Hvernig getur þessi vitneskja hjálpað okkur?
  3. Þekkir þú fólk sem er heltekið og eyðir öllum sínum fókus á andlega baráttu? Hvernig hjálpar það eða hindrar?
  4. Þekkir þú fólk sem tekur andlega baráttu ekki alvarlega? Hverning hjálpar það eða hindrar?
  5. Hverning getur þú verið viðbúinn árásum og varið þig?
  6. Hvernig má lýsa því að hafa heilbrigt jafnvægi á milli þess að kenna Satan um allt slæmt og svo þess að taka ábyrgð á lífi sínu og gjörðum?

Hlusta á kennslu

Pin It

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Hvítasunnukirkjan á Selfossi