Ertu púsl eða pappi?

Ef við einföldum umræðuna þá eru tvær leiðir til að skilja tilveruna. Annað hvort hefur líf okkar tilgang eða ekki.

Ertu púsl eða pappi?

Tilgangur

Í Efesusbréfinu 2:10, sem Páll postuli skrifaði til hóps af fólki í borginni Efesus árið 62 stendur: Við erum smíð Guðs, sköpuð í Kristi Jesú til góðra verka sem hann hefur áður fyrirbúið til þess að við skyldum leggja stund á þau.

Við erum sköpuð, smíðuð af Guði. Þegar Guð skapar mig og þig þá gerir hann það m.a. til þess að við vinnum þau verk sem hann hefur áætlun um. Guð gefur lífi okkar tilgang, virði og merkingu.

Tilgangsleysi

Hin leiðin til að skilja tilveruna er að hún stjórnist algjörlega og eingöngu af náttúrulögmálunum. Það fær menn eins og Richard Dawkins til að segja: Í heimi elektróna og eigingjarna gena, blindra náttúruafla og gena afritunar, þá meiðist sumt fólk meðan aðrir verða heppnir og þú munt ekki finna neina ástæðu, rytma eða réttlæti í því. Heimurinn sem við skoðum hefur nákvæmlega þá eiginleika sem við myndum búast við ef hann í grunvallaratriðum hefur hvorki hönnun né tilgang, ekkert illt, ekkert gott - ekkert nema miskunnarlaust skeytingarleysi. (River Out of Eden: A Darwinian View of Life)

Jósef

Þegar Jósef var unglingur var hann seldur sem þræll til Egyptalands af bræðrum sínum. Eftir að hafa unnið sem þræll og staðið sig vel var hann ranglega sakaður um nauðgun og hent í fangelsi. Þar fékk hann að dúsa í nokkur ár áður en Faraó, leiðtogi Egypta, kallaði hann fyrir sig og gerði hann að æðsta manni Egyptalands. Jósef sinnti starfi sínu vel og bjargaði þjóðinni undan 7 ára hungursneyð. Síðar komu bræður Jósefs til Egyptalands og þá fór Jósef að íhuga líf sitt. Hann sagði við bræður sína: Þér ætluðuð að gjöra mér illt, en Guð sneri því til góðs, til að gjöra það, sem nú er fram komið, að halda lífinu í mörgu fólki (1Mós 50:20).

Jósef áttaði sig á því að jafnvel þó að aðrir hefðu gert honum illt þá gat Guð komið sínum áætlunum í framkvæmd, svo lengi sem Jósef hélt áfram að treysta Guði og gera það sem var rétt af trúmennsku, sérstaklega í erfiðum aðstæðum.

Ertu púsl eða pappi?

Er líf okkar pappa bútur sem fyrir einhverja tilviljun fýkur til í rokinu, hingað og þangað, án stefnu eða tilgangs? Eða er líf okkar púsl sem hefur tiltekna lögun og er hluti af stærra samhengi? Púslið passar á tiltekinn stað í mynd Guðs. Púslið hefur tilgang og virði. Líf þitt hefur tilgang og virði.

Höfundur: Ágúst Valgarð Ólafsson. Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Frá draumi til veruleika. Smelltu hér til að horfa eða hlusta á predikun tengda efni þessa pistils.

Umræðuspurningar fyrir heimahópa

  1. Er erfitt eða auðvelt fyrir þig að trúa því að Guð hafi tilgang og áætlun með þitt líf? Hversvegna?
  2. Lestu Róm 8:28. a) Hverju lofar þetta vers varðandi það hvað verður úr lífi þínu? b) Hvaða áhrif hefur þetta á viðhorf þín til mistaka og erfiðleika í lífi þínu?
  3. Hversvegna gerir Guð lítið af því að útskýra tilgang lífs okkar í smáatriðum?
  4. Hvað er trúmennska og hversvegna er trúmennska eins og Jósef sýndi lykillinn að því að uppgötva tilganginn með lífi okkar?

Hlusta á kennslu

Pin It

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Hvítasunnukirkjan á Selfossi