Að fara út með fagnaðarerindið

Skrifað af Þorsteinn Jóhannesson. Posted in Pistlar

Samkvæmt Biblíunni var Davíð maður eftir Guðs hjarta, en þrátt fyrir það þá varð honum illilega á. Hann féll í það að girnast og sofa hjá konu annars manns og til að hylma yfir þá lét hann drepa manninn. En hvað olli því að maður eftir Guðs hjarta féll svona svakalega?

Að fara út með fagnaðarerindið

Biblían segir að í stað þess að fara fyrir hernum í bardaga þá hafi Davíð setið heima hjá sér og látið aðra um að leiða herinn og í þeim kringumstæðum hafi hann fallið. Hlutverk Davíðs sem konungs var að fara fyrir og ef þjóðin var í bardaga þá átti hann að fara þar fyrir. En af einhverjum orsökum gerði hann það ekki og líklega var það hluti af ástæðunni fyrir því að hann féll.

En hvað með okkur sem kristnir einstaklingar? Við vitum að við þurfum að biðja og lesa og eiga samfélag við aðra kristna til að rækta trú okkar en hvað með það að segja öðrum frá?

Jesús var mjög skýr á því að við ættum að fara út segja öðrum frá honum! Davíð var í hernaði en það erum við líka, við erum í andlegum hernaði og til að við getum staðist þá þurfum við að segja frá. Ef við gerum það ekki þá verðum við eins og vatn sem bara flæðir í, sem staðnar og síðan fúlnar. Við getum ekki bara þegið, við verðum líka að gefa og við gefum með því að hlýða Jesú og fara út og segja öðrum frá.

Margir treysta sér ekki til að ræða fagnaðarerindið við aðra, sérstaklega ekki ókunnuga. En allir geta gert eitthvað, t.d. bjóða öðrum með sér á viðburð þar sem fagnaðarerindið er flutt með einhverjum hætti.

Íhugun og framkvæmd

  1. Í 2 Samúelsbók 11:1–2, segir að Davíð var í Jerúsalem þegar konungar fóru í hernað. Hann sendi Jóab í sinn stað. Af hverju er svo mikilvægt að fara út þegar við eigum að fara út? Hver er hættan ef við gerum það ekki?

  2. Lestu Lúkas 14:15–24.

    2a Hvað stendur veislan fyrir í dæmisögunni?

    2b Í þessari dæmisögu gerir Jesús það ljóst að engar afsakanir eru gildar varðandi að taka þátt í veislunni með honum. Hvaða afsakanir heyrir þú eða gefur varðandi að nálgast hann þegar hann kallar?

    3b Í dæmisögunni sendir konungurinn út þjóna sína til að ná í aðra til að taka þátt í veislunni. Hvaða skilaboðum vill Jesú koma á framfæri til þeirra sem trúa á hann með þessari dæmisögu? 

  3. Hvað hugsar þú þegar þú heyrir orðið að vitna? Er hugsunin jákvæð eða neikvæð? Af hverju?

  4. Hvað þýðir að vitna í raun og veru?

  5. Hvernig eigum við að segja öðrum frá trú okkar? Hvað virkar á Íslandi í dag og hvað virkar ekki?

  6. Ef einhver leitaði ráða hjá þér varðandi hvort Guð væri að ýta á hann að segja einhverjum frá Jesú, en hann væri ekki viss um að Guð væri að ýta á hann, hvað myndir þú segja?

    Biddu Guð að minna þig á einstakling sem Hann vill að þú talir við um Jesú. Biddu Hann um að þú sjáir þennan einstakling á sama hátt og Guð sér hann. Biddu Guð um visku til að vita hvenær þú eigir að fara út og fylgja Hans leiðsögn. Biddu Guð að leiðbeina þér hvernig þú getur sagt öðrum frá á þann hátt að hjarta þeirra verði opið fyrir Honum.

Höfundur: Þorsteinn Jóhannesson

Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Farið, gerið, skírið og kennið

Allt vald er mér gefið