Ekki gefast upp að biðja

Skrifað af Þorsteinn Jóhannesson. Posted in Pistlar

Við upplifum sjálfsagt öll að bænum okkar er ekki svarað strax og við sumum virðumst við alls ekki ætla að fá bænasvar. Við erum kannski að biðja fyrir að ástvinir okkar eða vinir frelsist en sjáum lítinn árangur.

Ekki gefast upp að biðja

Í 10 kafla Daníelsbókar er frásögn af því þegar Daníel fastar og biður í 21 dag í kjölfar þess að hann fær sýn varðandi miklar þrengingar sem skelfdu hann. Á 21 degi fær Daníel bænasvar þar sem engill birtist honum. Það sem er merkilegt er að engillinn segir Daníel að þegar hann hóf bænina þá kom bænin fram fyrir Guð og engillinn var sendur en sökum þess að hann var hindraður af illum anda þá komst engillinn ekki með svarið fyrr en 21 degi síðar.

Þessi frásögn ætti að vera hvatning fyrir okkur að gefast ekki upp að biðja. Jesús sagði að ef við lifum samkæmt hans vilja þá getum við beðið um hvað sem við viljum og okkur mun veitast það (Jóh 15:7) en hann sagði líka að við sumu fengist ekki bænasvar nema með bæn og föstu (Mat 17:21).

Við erum í andlegri baráttu þar sem við viljum vinna á móti því illa og okkar helsta vopn í þeirri baráttu er bænin. Ef við viljum að fólk frelsist, ef við viljum vinna á móti óréttlæti og myrkri þá er okkar helsta vopn bænin. En til að bænir okkar missi ekki marks þá þurfum við að lifa lífum okkar samkvæmt vilja Guðs.

Íhugun og framkvæmd

  1. Hefur þú upplifað þegar þú hefur beðið fyrir einhverju ákveðnu að þú þyrftir að biðja í gegn og jafnvel fasta?
  2. Hefur þú upplifað að bænarefni sem þú hefur kannski lengi beðið fyrir að bænasvarið væri komið þrátt fyrir að þú sæir ekki merki þess en þú bara vissir að þetta væri komið?
  3. Hefur þú upplifað andlega baráttu, útskýrðu?

Höfundur: Þorsteinn Jóhannesson

Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir einfaldlega Daníel

Smelltu til að hlusta eða horfa á kennslu