Að gefa

Skrifað af Kolbrún Berglind Grétarsdóttir. Posted in Pistlar

Til eru sagnfræðilegar staðreyndir um að Jesús gekk hér um á jörðinni. Guð valdi að senda okkur Jesú m.a. til að kenna okkur hvernig við gætum lært að elska fólk og gera öðrum gott. Það er talað um að við líkjumst þeim sem við umgöngumst. Ef við veljum að verja daglega tíma með Jesú þá komum við til með að líkjast honum meira og okkur reynist auðveldara að gera það sem hann gerði.

Að gefa

Þetta kallast vöxtur og heilbrigði. Fylgjendur Jesú eru fætur hans og hendur hér á jörð og þeim hefur verið treyst til að framkvæma það sem Guði liggur á hjarta gagnvart fólki. Það sem býr í hjarta okkar mótar það og af þvi gefum við til annarra. Ef hjarta okkar er fullt af kærleika Guðs gefum við kærleika Guðs áfram til annarra. Ef hjarta okkar er fullt af ást á veraldlegum eignum og dauðum hlutum þá höfum við lítið að gefa öðrum.

Gefum af okkur til að breiða út kærleika Guðs

Notaðu hvert tækifæri til að blessa fólk. Hafðu í huga að allar manneskjur hafa þörf fyrir blessun og uppörvun. Hvern getur þú uppörvað í dag? Gefðu líka af þér til kirkjunnir þinnar og ef þú sækir ekki kirkju reglulega prófaðu að mæta í nokkur skipti og þú munt finna líf þitt breytast til meiri hamingju, þér og öðrum til ómældrar blessunar.

Gefum af fjármunum okkar til að kirkjan geti breitt út ríki Guðs

Þetta reynist mörgum erfitt en ef við viljum að fólk fái að kynnast Jesú, eins og við höfum fengið að kynnast honum, þarf kirkjan fjármagn. Sitjum ekki ein að því að koma saman í kirkjunni og fá blessun og uppörvun. Gefum til að aðrir fái að eignast.

Gefum af eigum okkar til að við séum ekki þrælar heldur frjáls

Öll viljum við eiga gott líf og það er eðlileg þörf. En hversu gott þarf gott að vera og versu mikið er nóg? Lífsgæði okkar, í hvaða mynd sem er, ættu alltaf að stjórnast af því sem er í hjarta okkar því þaðan kemur hver við raunverulega erum. Fyllum ekki líf okkar af endalausum óþarfa sem gerir ekkert annað en að hneppa okkur í þrældóm sýndarmennsku og græðgi. Temjum okkur heldur að vera nægjusöm og gefa af okkur og með okkur. Þannig verður heimurinn betri

Höfundur: Kolbrún Berglind Grétarsdóttir

Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Af heilum hug

Til umræðu eða íhugunar

  1. Hversu auðvelt átt þú með að koma auga á þarfir annarra og bregðast við þeim?
  2. Hversu auðvelt átt þú með að gefa af fjármunum þínum?
  3. Hvernig gengur þér að losa þig við hluti sem þú notar ekki lengur?

Í bókinni "Af heilum hug" eru mjög góð verkefni og spurningar úr þessu efni. Bókina er hægt að nálgast í flest öllum Hvítasunnukirkjum. Sendu okkur línu ef þig vantar eintak eða komdu í heimsókn.

Hlusta á kennslu