Á hverjum miðvikudegi birtist nýr pistill. Sendu okkur línu ef þú ert með hugmynd að pistli eða ef þú ert með spurningu sem mætti svara með pistli.

Lífið er langhlaup, höldum kúrsinn

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Lífið er langhlaup. Fyrir kristinn einstakling er mikilvægt að halda kúrsinn en berast ekki af leið.

Í 2Ti 1:1-14 kemur það þema að varðveita eða halda kúrsinn fyrir a.m.k. 7 sinnum:

  • v5 hún býr líka í þér - trúin hefur varðveist yfir ættliði í fjölskyldu Tímóteusar. Í orðunum liggur að slík hræsnislaus trú búi ekki endilega í öllum heldur mótist líka af þeim sem fóru á undan okkur. Trúfesti okkar hefur því áhrif á okkar börn.
  • v6 glæða - ekki aðeins að varðveita heldur að fara vaxandi
  • v7 hugrekki, máttur og stilling - þetta er a.m.k. að halda ró sinni þegar á gefur
  • v8 fyrirverða sig ekki en þola illt - afbrigði af að varðveita og standa stöðugur
  • v12 varðveita það sem mér er trúað fyrir
  • v13 stattu stöðugur
  • v14 varðveittu hið góða

Varðveisla er þannig eitt megin stefið í þessum texta. Lykillinn þar er hjálp heilags anda. T.d. vers 6, 12 og 14 undirstrika að heilagur andi er sterkasta aflið til að hjálpa okkur að varðveita. Spurningin er því: Hvernig hlúum við best að heilögum anda sem í okkur býr? Þannig gengur okkur vel að varðveita það sem okkur er trúað fyrir og halda kúrsinn.

Þrjú ráð til að hlúa að heilögum anda í lífi okkar (ekki tæmandi listi):

  • Tungutal: Tungutal er eina náðargjöfin sem hefur það loforð að byggja upp þann sem notar gjöfina (sjá 1Kor 14:4). Ef þú átt ekki tungutal skaltu sækjast eftir því. Ef þú átt tungutal skaltu læra að ástunda það að biðja í tungum (Ef 6:18). Sá sem biður í tungum er að leyfa anda Guðs að biðja í sér (sjá t.d. Mat 10:20, Gal 4:6).
  • Hlúðu að sambandi þínu við heilagan anda. Guð hefur gefið okkur heilagan anda sem okkar persónulega þjálfara og leiðbeinanda (sjá Jóh 14:26, Jóh 16:13, 2Kor 13:14, Fil 2:1).
  • Hlýðni: Heilagur andi gefur kraft þeim sem lýtur leiðsögn hans, þeim sem gerir það sem heilagur andi vill gera en hryggir hann ekki (Ef 4:30, 1Þess 5:19-22, Post 7:51, Post 4:33, Róm 15:18-19).

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Ágúst Valgarð predika um þetta efni.

Trú er lykillinn að krafti Guðs

Skrifað af Pétur Erlendsson. Posted in Pistlar

Ímyndaðu þér að þú hafir brennandi áhuga á kraftmiklum bílum. Svo gerist það dag einn að þér býðst að setjast undir stýri á kraftmesta bíl sem þekkist. Þú kemur þér vel fyrir undir stýri, reiðubúinn að knýja í gang kraftinn sem býr undir húddinu en þá áttar þú þig á því að lykilinn vantar. Þar með er engin leið að komast að og njóta þess kraftar sem bíllinn hefur uppá að bjóða.

Þannig er það líka með okkur sem Kristin erum. TRÚIN Á ALMÆTTI GUÐS, er lykillinn að krafti Guðs. Þá er ég ekki að tala um trú á tilvist Guðs heldur trú á ALMÆTTI GUÐS og fyrirheiti hans. Að trúa því að þegar skilningur okkar blindast í erfiðum kringumstæðum, að þá sé Drottinn ennþá við stjórnvölinn og allt ennþá „under control“.

Í þremur af fjórum guðspjöllum nýja testamentisins er talað um konu sem hafði blóðlát í tólf ár. Hennar skilningur á aðstæðum hefur eflaust blindast með árunum en þegar hún valdi í þeirri blindni sinni að trúa á kraft Guðs og snerta klæði Krists, gerðist það að KRAFTUR GUÐS fór út af Jesú og í konuna og varð hún alheil. Þetta var ekki eitthvað sem Jesús ákvað að gerðist, heldur gerðist það sjálfkrafa. Við sjáum það af því Jesús spurði. „Hver snart mig?“

Auðmýkt konunnar, trú hennar og traust á Jesú, þrátt fyrir kringumstæðurnar, snertu hjarta Guðs og leystu úr læðingi kraft Guðs.

Trú okkar á Guð er ekki blind því við byggjum á staðreyndum um tilvist Guðs og treystum loforðunum í Biblíunni. Þegar reynir á trú okkar í erfiðum aðstæðum getum við valið að treysta því sem Guð hefur sagt.

Jesús sagði við Tómas: „Þú trúir af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir sem hafa ekki séð og trúa þó.“ (Jóh. 20:29) Við höfum Jesú ekki fyrir framan okkur eins og Tómas en við trúum þó því við höfum staðreyndir um tilvist Guðs, staðreyndir um það að Jesús gekk um hér á þessari jörðu, var tekinn af lífi af Rómverjum en reis upp á þriðja degi. Eftir að hafa sannfærst um þessi grundvallaratriði lærum við svo að heyra og treysta orði Guðs og þannig vex trú okkar (Róm 10:17).

Þess vegna þurfum við ekki að sitja lyklalaus undir stýri í tólf ár, eins og konan með blóðlátið, heldur getum notað lykil trúarinnar. Þó við skiljum ekki allt þá gerir trúin okkur mögulegt að treysta Guði inn í framtíðina með því að byggja á því sem við vitum í dag.

Kæru vinir, sitjum ekki undir stýri lyklalaus í tólf ár, eins og konan með blóðlátið. Notum lykil trúarinnar og leysum þannig kraft Guðs úr læðingi okkur til handa.

Guðs blessun sé með okkur öllum.

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Pétur Erlendsson predika um þetta efni.

Orð hafa áhrif

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Heimurinn á upphaf sitt í orðum. Guð sagði „Verði ljós” og alheimurinn þandist út. Allt sem er í kringum þig er skapað með orðum. Guð skapaði okkur í sinni mynd sem merkir að við líkjumst Guði að einhverju leyti. Eitt af því sem við líkjumst Guði með er að orð okkar hafa áhrif.

Davíð konungur skrifaði Sálm 13. Þessi sálmur er eitt af mörgum dæmum í Sálmunum þar sem erfiðar tilfinningar eru tjáðar. Fjórum sinnum endurtekur Davíð „Hve lengi” og kvartar við Guð. En Sálmurinn hættir ekki þar. Undir lokin segir „Ég treysti gæsku þinni” (vers 6). Það er greinilegt að Davíð er ennþá í erfiðum aðstæðum en samt sem áður notar hann orð sín til þess að játa orð Guðs og loforð. Davíð segist treysta á gæsku Guðs í aðstæðum þar sem Davíð hafði skrikað fótur (vers 5). M.ö.o. þá hljómar þetta eins og Davíð hafi klúðrað einhverju (skrikað fótur) og er þess vegna kominn í vandræði. Hann ákallar Guð um hjálp og kvartar yfir því að hjálpin sé ekki komin (Hversu lengi…). Samt sem áður endar hann sálminn á því að segjast treysta gæsku Guðs og gleðjast yfir hjálp sem virðist samt ekki vera komin!

Guð sagði um Davíð að hann væri maður eftir hjarta Guðs (Pos 13:22 og 1Sam 13:14). Það er uppörvandi að þannig maður biðji svona. Það þýðir að þó að mér skriki fótur þá get ég samt treyst á gæsku Guðs og þakkað Guði fyrir hver hann er og hjálp hans. Að biðja þannig er að biðja eftir hjarta Guðs.

Að nota tungu okkar til að játa og lýsa því yfir hver Guð er, sérstaklega í erfiðum aðstæðum, hefur áhrif. Vissulega þurfum við að tjá tilfinningar okkar og jafnvel kvarta, eins og Davíð gerir í fyrstu versum Sálms 13. En stoppum ekki þar. Notum orð okkar til að lofa Guð, játa hver hann er og fyrirheiti hans. Það hefur áhrif.

Hér fyrir neðan eru nokkur dæmi úr Efesusbréfinu um yfirlýsingar sem eru sannar fyrir alla þá sem treysta Jesú. Búið er að umorða versin. Notaðu þessar yfirlýsingar sem bæn fyrir eigið líf. Talaðu þetta upphátt eða biddu þetta yfir öðru fólki.

  • Máttur Guðs í mér er sami krafturinn og vakti Jesú upp frá dauðum. Ef 1:19-20
  • Ég var eitt sinn fjarlægur en er nú orðinn nálægur í Kristi, fyrir blóð hans. Ef 2:13
  • Ég er bústaður handa Guði fyrir anda hans. Ef 2:22
  • Í trúnni á Jesú á ég öruggan aðgang að Guði. Ef 3:12
  • Megi Kristur fyrir trúna búa í hjarta mínu og að ég verði rótfestur og grundvallaður í kærleika. Ef 3:17

Það eru mörg önnur loforð og yfirlýsingar í Efesusbréfinu og öðrum bókum Biblíunnar. Notaðu sömu aðferð og hér að ofan til að búa til þínar eigin yfirlýsingar úr öðrum versum. Þannig hefur orð Guðs áhrif á líf þitt og annarra á ferskan hátt.

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Ágúst Valgarð predika um þetta efni.

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Skylt efni

Hvítasunnukirkjan á Selfossi