Góðir Ávextir – Gott Líf

Skrifað af Gunnhildur Stella Pálmarsdóttir. Posted in Pistlar

Biblían segir að gott tré beri góðan ávöxt en slæmt tré beri slæman ávöxt. Í grein einni sem ég las eftir Joyce Meyer sagði hún að líf okkar er oft eins og tré og hvern dag koma ávextir fram í lífi okkar. Ef okkar “tré” hefur fest rætur í skömm, gremju, reiði, sektarkennd, höfnun, vöntun á kærleika, vöntun á samþykki, neikvæðni, tilhneigingu til að dæma o.sfrv. þá munu ávextir lífs okkar ekki vera góðir. En ef ávextir lífs okkar eru fastir í náð, kærleika, miskunnsemi, jákvæðni, þolinmæði o.s.frv. þá munu ávextir lífs okkar vera góðir.

Sem kristnir einstaklingar þá er okkur ætlað að bera ávexti. Biblían talar um ávexti andans í Galatabréfinu 5: 23-34 sem eru “kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi”. Það sýnir okkur að okkur er ætlað að bera ávexti. Eitt sinn fór ég á leiðtoganámskeið þar sem maður að nafni Scott Wilson var að tala. Hann talaði um að við ættum að prófa að mæla ávexti andans í lífi okkar. Mér fannst þetta nokkuð gott hjá honum því staðreyndin er sú að ákveðnir ávextir vaxa ef til vill hraðar í lífi okkar en aðrir. Okkur er ætlað að vaxa og fara fram á við hvern dag sem kristnir einstaklingar. Ef við til að mynda myndum skoða ávexti andans í lífi okkar í hverri viku og mæla þá frá skalanum 0 – 10 þá gætum við kannski eina vikuna séð að við höfum verið með yfir 7 í öllu nema kannski langlyndi (þolinmæði). Þá gætum við tekið næstu viku og virkilega beðið Guð að auka við okkur þolinmæði…. Síðan gætum við skoðað þá viku og vonandi séð að við höfum vaxið í þolinmæði.

Mín þrá er sú að ávextir lífs okkar allra séu góðir ávextir. Oft þarf að vinna í þessum neikvæðu og með Guðs hjálp að rífa þá upp með rótum til að góðu ávextirnir fái að vaxa í friði og ró. Mín þrá er sú að við sem kirkja þráum ennþá meira heilbrigði fyrir okkur sjálf, fyrir börnin okkar, fyrir unglingana okkar og fyrir samfélagið í kringum okkur. Mín þrá er einnig sú að við getum öll staðið saman, uppörvað hvort annað og talað jákvæða hluti inn í líf hvors annars og um hvort annað.

“Af ávöxtunum skulið þér þekkja þá”

Guð blessi þig í dag,

Gunnhildur Stella Pálmarsdóttir