Trú er lykillinn að krafti Guðs

Skrifað af Pétur Erlendsson. Posted in Pistlar

Ímyndaðu þér að þú hafir brennandi áhuga á kraftmiklum bílum. Svo gerist það dag einn að þér býðst að setjast undir stýri á kraftmesta bíl sem þekkist. Þú kemur þér vel fyrir undir stýri, reiðubúinn að knýja í gang kraftinn sem býr undir húddinu en þá áttar þú þig á því að lykilinn vantar. Þar með er engin leið að komast að og njóta þess kraftar sem bíllinn hefur uppá að bjóða.

Þannig er það líka með okkur sem Kristin erum. TRÚIN Á ALMÆTTI GUÐS, er lykillinn að krafti Guðs. Þá er ég ekki að tala um trú á tilvist Guðs heldur trú á ALMÆTTI GUÐS og fyrirheiti hans. Að trúa því að þegar skilningur okkar blindast í erfiðum kringumstæðum, að þá sé Drottinn ennþá við stjórnvölinn og allt ennþá „under control“.

Í þremur af fjórum guðspjöllum nýja testamentisins er talað um konu sem hafði blóðlát í tólf ár. Hennar skilningur á aðstæðum hefur eflaust blindast með árunum en þegar hún valdi í þeirri blindni sinni að trúa á kraft Guðs og snerta klæði Krists, gerðist það að KRAFTUR GUÐS fór út af Jesú og í konuna og varð hún alheil. Þetta var ekki eitthvað sem Jesús ákvað að gerðist, heldur gerðist það sjálfkrafa. Við sjáum það af því Jesús spurði. „Hver snart mig?“

Auðmýkt konunnar, trú hennar og traust á Jesú, þrátt fyrir kringumstæðurnar, snertu hjarta Guðs og leystu úr læðingi kraft Guðs.

Trú okkar á Guð er ekki blind því við byggjum á staðreyndum um tilvist Guðs og treystum loforðunum í Biblíunni. Þegar reynir á trú okkar í erfiðum aðstæðum getum við valið að treysta því sem Guð hefur sagt.

Jesús sagði við Tómas: „Þú trúir af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir sem hafa ekki séð og trúa þó.“ (Jóh. 20:29) Við höfum Jesú ekki fyrir framan okkur eins og Tómas en við trúum þó því við höfum staðreyndir um tilvist Guðs, staðreyndir um það að Jesús gekk um hér á þessari jörðu, var tekinn af lífi af Rómverjum en reis upp á þriðja degi. Eftir að hafa sannfærst um þessi grundvallaratriði lærum við svo að heyra og treysta orði Guðs og þannig vex trú okkar (Róm 10:17).

Þess vegna þurfum við ekki að sitja lyklalaus undir stýri í tólf ár, eins og konan með blóðlátið, heldur getum notað lykil trúarinnar. Þó við skiljum ekki allt þá gerir trúin okkur mögulegt að treysta Guði inn í framtíðina með því að byggja á því sem við vitum í dag.

Kæru vinir, sitjum ekki undir stýri lyklalaus í tólf ár, eins og konan með blóðlátið. Notum lykil trúarinnar og leysum þannig kraft Guðs úr læðingi okkur til handa.

Guðs blessun sé með okkur öllum.

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Pétur Erlendsson predika um þetta efni.