Páskar - Ríki Jesú er ekki af þessum heimi

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Jesús ríður á asna inn í Jerúsalem og fólkið fagnar. Páskahátíð gyðinga var að hefjast. En hvað höfðu þeir sem fögnuðu í huga? Jafnvel þeir sem þekktu Jesús best höfðu ranga sýn á hvað Jesús ætlaði sér að gera. Margir vonuðust til að Jesús myndi reka rómverjana út og endurreisa Ísrael sem sterkt veraldlegt ríki. Aðrir vildu sjá Jesús lækna alla sjúka og gefa öllum nægt brauð að borða.

En Jesús hefur aldrei passað inn í okkar veraldlegu hugmyndir um hann. Kirkjan á að vera líkami Jesú hér á jörðu, hendur hans og fætur. Sumar af verstu stundum kirkjunnar hafa verið þegar hún hefur þáð veraldlega upphefð og völd. Hefur blandað sér í stjórnmál og veraldarvafstur. Kirkjan á að einbeita sér að hjörtum fólks og að gera fólk að lærisveinum Jesú Krists. Ríki Jesú er ekki af þessum heimi þó það geti mótað þennan heim þegar Jesús er Drottinn í lífi okkar.

Við sem í huga okkar horfum á Jesú koma inn í Jerúsalem og fólkið fagna ættum að minnast þess að á eftir Pálmasunnudegi kemur krossinn. Krossinn er kjarni þess að fylgja Jesú. Sá sem fagnar Jesú verður að koma að krossinum til að kynnast því virkilega hver Jesús er. Sá sem velur sér “sinn eigin Jesú,” Jesús sem á að klára þann málstað sem ég hef mestan áhuga á, þarf að koma að krossinum og skilja sínar hugmyndir um réttlátan heim eftir þar. Gefa Jesú líf sitt og þiggja í staðinn nýtt hjarta frá honum, hjarta sem hefur gert Jesús að Drottni og meðtekið hann sjálfan, Jesús, sem réttlæti Guðs fyrir þennan heim. Það er bara ein leið til að það ríki friður og réttlæti í þessum heimi, að Jesús sé Drottinn.

Íhugun og framkvæmd

  1. Hvað finnst þér vera mesta óréttlætið á Íslandi? Hverju myndir þú breyta ef þú værir einræðisherra í einn dag á Íslandi?
  2. Hefur þú einhverntímann þurft að leiðrétta hugmyndir þínar um hver Jesús er?

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Helga Guðnason predika um þetta efni.