Á hverjum miðvikudegi birtist nýr pistill. Sendu okkur línu ef þú ert með hugmynd að pistli eða ef þú ert með spurningu sem mætti svara með pistli.

Sönn trú er ekki blind

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Hvernig er hægt að vita hvort Guð sé til?

Nýlega áttum við hjónin 20 ára brúðkaupsafmæli. Hjónabandið okkar er sterkara núna en nokkru sinni fyrr og við njótum þess að vera saman. En þegar við hittumst fyrst þekktumst við ekkert. Við fórum að hittast og vörðum miklum tíma í að tala saman. Þannig lærðum við að þekkja hvort annað. Ég lærði að þekkja hana, hvernig hún hugsaði, brást við aðstæðum og hún lærði sömuleiðis að þekkja mig. Við ákváðum svo að ganga í hjónaband, í góðri trú um að sú gagnkvæma þekking sem við höfðlum öðlast væri traust vísbending um framhaldið. Við gátum ekki sannað það vísindalega að hjónabandið yrði gott, en við völdum að treysta því á grunni fyrirliggjandi þekkingar.

Sönn trú er ekki blind

Að eignast trú á Guð er sambærilegt ferli. Það er til fjöldi traustra staðreynda og raka fyrir tilvist Guðs. Ef við skoðum þetta með opnum huga getum við komist að þeirri niðurstöðu að Guðs sé til. Reyndar eru staðreyndirnar og rökin fyrir tilvist Guðs mun traustari heldur en traust okkar á fólki og jafnvel maka okkar, því Guð er eilífur og breytist ekki.

Því miður hefur sumt kristið fólk sagt hluti eins og: Ekki hugsa, bara trúa. Þetta er skaðlegt og beinlínis rangur skilningur á því hvað heilbrigð trú er. Heilbrigð trú er rökrétt afleiðing af því að hugsa skýrt.

Með því að kynna sér rökin fyrir tilvist Guðs með opnum huga (án þess að gefa sér niðurstöðuna fyrirfram), hugsa rökrétt, spyrja fullt af spurningum og ræða við aðra af gagnkvæmri virðingu vex þekking okkar á efninu - rétt eins og með alla aðra þekkingu. Þannig er hægt að vita hvort Guð sé til með nægilegri vissu til að taka afstöðu til þess.

Takk fyrir að heimsækja síðuna okkar. Við viljum gjarnan heyra frá þér ef þú ert með spurningu eða athugasemd.

Ágúst Valgarð Ólafsson er höfundur þessa pistils og hann predikaði um þetta efni 4.sept 2016. 

Til umræðu eða íhugunar

 1. Hefur þú heyrt því fleygt að hugsun sé slæm fyrir trú? Eitthvað í þeim dúr að: Ekki hugsa, bara trúa?
 2. Þið sem eruð sannfærð um að Guð sé til, hvernig komust þið að þeirri niðurstöðu? Ræðið í hópnum.
 3. Hver eru helstu rök þín fyrir því að Guð sé til? Hafðu í huga 1Pét 3:15-16 Það er gott að æfa sig í því að telja upp þessi rök eftir minni í öruggum hópi. Ef þú mannst lítið, ekki örvænta. Það er hægt að hugsa, lesa, læra smátt og smátt.
 4. Hefur þú tekist á við efasemdir? Ertu að takast á við efasemdir núna? Ræðið hvað eru góðar leiðir til að vinna úr efa, og e.t.v. hvað eru dæmi um slæm viðbrögð gagnvart þeim sem efast.
 5. Ágúst líkti því ferli að eignast trú á Guð við það ferli að kynnast maka og ganga í hjónaband. Ræðið þessa líkingu (þú þarft ekki að vera sammála þessu!).

Að taka góðar ákvarðanir

Skrifað af Gunnhildur Stella Pálmarsdóttir. Posted in Pistlar

Ungur fjárfestir fór til efnahagsráðgjafa dag einn og bað hann um örlítið af visku hans. „Hvert er leyndarmálið á bakvið árangur í viðskiptum, spurði hann.” Maðurinn svaraði: „Viturlegar ákvarðanir.” „Hvernig get ég þá lært að taka viturlegar ákvarðanir?” „Með reynslu.” „Hvernig fæ ég reynslu?” „Með heimskulegum ákvörðunum” svaraði maðurinn þá.

Að taka góðar ákvarðanir

Sum okkar eru að taka erfiðar ákvarðanir í þessari viku. Sum okkar vitum það ekki í dag en við munuð standa frammi fyrir stórum ákvörðunum á morgun. Lífið er fullt af ákvörðunum. Sumar eru erfiðar og aðrar eru auðveldar.

Í Orðskviðunum 3:5 segir „Treystu Drottni af öllu hjarta en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit.”

Ég hef lært í gegnum tíðina að það er mjög skynsamlegt að leita Guðs þegar taka þarf ákvarðanir. Það er frábært að geta beðið hvar sem er og hvenær sem er um visku Guðs inn í aðstæður. Það er ekkert of lítið og ekkert of stórt fyrir Guð. Það er líka mikilvægt að bera stórar ákvarðanir undir einhvern annan. Einhvern sem við virðum og treystum. Einhvern sem samþykkir ekki alla vitleysuna í okkur en líka einhvern sem getur hlustað með hjartanu og gefið okkur af visku sinni.

Í Jakobsbréfinu 1:5-6 stendur „Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefast. En hann biðji í trú, án þess að efast. Sá sem efast er líkur sjávaröldu, er rís og hrekst fyrir vindi…”

Ertu fórnarlamb aðstæðna þar sem þú veltist um fram og til baka eða velur þú að taka ákvarðanir? Við þurfum að þora að framkvæma. Þurfum að þora að velja. Við þurfum að þora að biðja Guð að gefa okkur visku og taka svo ákvörðun. Það er gott að biðja Guð að opna dyr og biðja hann um að leiða okkur áfram. Gæði lífs okkar fara eftir ákvörðunum okkar, því sem við veljum og þeirri visku sem er að baki þessum ákvörðunum og vali.

Megi Guð blessa þig í dag og gefa þér visku og vísdóm til að taka góðar og skynsamar ákvarðanir.

Gunnhildur Stella Pálmarsdóttir er höfundur þessa pistils og hún predikaði um Að taka góðar ákvarðanir 28.ágúst 2016. Það er líka hægt að sækja umræðuspurningar fyrir þessar predikun. Það er tilvalið fyrir þá sem vilja vinna meira með efnið, hvort heldur er í hóp eða einir sér.

Frá eftirsjá til eftirvæntingar

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Hefur þú gert eða sagt eitthvað sem þú sást svo eftir? Hafa orð þín eða athafnir sært aðra, einnig þá sem þú elskar, og þetta angraði þig? Hefur þú upplifað sekt eða slæma samvisku yfir einhverju sem þú gerðir eða gerðir ekki?

Eftirvænting

Eftirsjá getur verið þrúgandi. Sumir lifa í eftirsjá árum saman eða jafnvel í áratugi. Eftirsjá getur haldið áfram og vaxið í það óendanlega. Eftirsjá í þessu lífi er nógu erfið, en ímyndaðu þér eftirsjá sem varir um eilífð og vex stöðugt, étur sig í sálina og það er engin undankoma.

Guð hefur gefið okkur leið til að losna við eftirsjá. Þessi leið læknar sársaukann af gjörðum okkar gagnvart öðru fólki og gagnvart Guði. Þessi leið heitir iðrun. Iðrun er ekki vera leiður yfir mistökum sínum heldur umbreyting í hjarta okkar sem leiðir til lækningar og líf vonar og eftirvæntingar.

Efesusbréfið 2:8-9 segir: Því að af náð eruð þið hólpin orðin fyrir trú. Þetta er ekki ykkur að þakka. Það er Guðs gjöf. Ekki byggt á verkum, enginn skal geta miklast af því.

Eins og trú er gjöf þá er iðrun líka gjöf frá Guði. Góðu fréttirnar eru þær að við getum beðið Guð um slíka gjöf. Þetta er ekki eitthvað sem við getum framkallað á eigin spýtur heldur gjöf frá Guði.

Í spádómsbók Jesaja, kafla 45 og versi 22 segir: Snúið yður til mín og látið frelsast, þér gjörvöll endimörk jarðarinnar, því að ég er Guð og enginn annar. (Biblían útgáfa 1981)

Hér eru nokkur hagnýt ráð varðandi iðrun byggt á þessu versi úr Jesaja og orðinu SNÚA:

  • Snúa:

   Iðrun er að snúa sér, eins og fyrsta orðið í þessu versi segir. Að snúa sér er að stefnubreyting, hætta að ganga í eina átt og byrja að ganga í aðra.
  • Nei:

   Iðrun er að segja nei við því sem Guð segir að sé rangt. Þannig viðurkennum við að Guð sé Guð og að munurinn á réttu og röngu sé lína sem liggur beint upp til hans.
  • Útilokað:

   Það er útilokað að eiga sanna iðrun án Guðs. Við erum öll með blindan blett sem við getum ekki séð á eigin spýtur.
  • Algjör:

   Sönn iðrun er algjör til Guðs. Það er hægt að vera hryggur yfir mistökum sínum án þess að stíga inn í sanna iðrun. Slík hryggð gerir ekkert fyrir okkur (sjá 2Kor 7:9-10).

Ágúst Valgarð Ólafsson predikaði um iðrun og að SNÚA 21.ágúst 2016.

Fögnum bata er 12 spora starf sem hjálpar okkur að gera upp líf okkar skref fyrir skref í gegnum sanna iðrun.

Ágúst Valgarð Ólafsson

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Skylt efni

Hvítasunnukirkjan á Selfossi