Á hverjum miðvikudegi birtist nýr pistill. Sendu okkur línu ef þú ert með hugmynd að pistli eða ef þú ert með spurningu sem mætti svara með pistli.

6 vegatálmar sem hindra andlegan vöxt þinn

Skrifað af Guðbjörg Hrönn Tyrfingsdóttir. Posted in Pistlar

Fyrir nokkrum dögum síðan var ég að keyra frá heimili mínu í Georgiu til kirkju í Alabama til að predika í 5 daga. Ég hélt ekki að hin mikla snjókoma sem spáð hafði verið myndi hindra ferð mína þangað til ég kom til bæjarins Anniston. Þar hafði lögreglan lokað aðalveginum vegna íss á brúm.

6 vegatálmar sem hindra andlegan vöxt þinn

Vegurinn var lokaður og ég komst ekki frá Birmingham á þjóðvegi 431.  Þegar ég reyndi aðra leið mætti ég bara meiri ís og vegartálmum.  Þetta hafði aldrei komið fyrir mig í Flórída - þar höfum við ekki ís á vegum.  Svo ég var fastur.  Ég varð að snúa við og fara heim.

Sem betur fer færði gestgjafi minn samkomurnar og ég kom til kirkjunnar hans tveimur dögum síðar, eftir að allur ísinn hafði bráðnað.  En öll þessi reynsla minnti mig á að það eru stundir þar sem við getum ekki farið þangað sem við þurfum að fara því vegir okkar eru tepptir.

Sem kristnir einstaklingar erum við kölluð til að stíga skref fram á við í trúnni.  Páll postuli setti okkur fordæmi þegar hann sagði: “[Ég] keppi þannig að markinu, til verðlaunanna á himnum, sem Guð hefur í Kristi kallað okkur til” (Fil. 3.14).  Þú átt ekki að vera á sama stað andlega ár eftir ár.  Guð vill að þú vaxir.  En oft setjum við okkur föst, yfirleitt vegna þessara 6 vegartálma:

1. Skortur á andlegu hungri.  Viðurkennum það: Helsta ástæða þess að margir kristnir einstaklingar festast í hjólförum er að þeim líður bara vel þar.  En Guð leitar að fólki sem neitar að sætta sig við að vera um kyrrt þar sem það var á síðasta ári.  Hann kallar þig lengra.  Þú verður að biðja heilagan anda að tendra í hjarta þínu þrá eftir meira af nærveru Drottins og krafti.

Davíð er fordæmi okkar hvað varðar andlegt hungur.  Hann skrifar: “Eins og hindin þráir vatnslindir þráir sál mín þig, ó Guð” (Sálm. 42.2).  Honum leið í raun ömurlega þegar hann skrifaði þessi orð, svo við getum ekki notað tilfinningar okkar sem afsökun.  Davíð hélt logum andlegrar ákefðar lifandi jafnvel þegar hann langaði helst bara að hætta þessu öllu saman. 

2. Leti.  Mörg okkar eru full af ákefð í byrjun árs að biðja, rýna í Biblíuna, byrja aftur í skóla eða grennast.  En enginn vinnur kapphlaup með því að spretta fyrstu 15 metrana og setjast svo niður.  Sigurvegarar verða að halda sig í leiknum.  Þú verður að vera ákveðinn í að klára það sem þú byrjar á í stað þess að skilja eftir slóð af yfirgefnum tilraunum.

Páll hvatti söfnuðinn í Róm til að vera “brennandi í andanum,” en fyrst varaði hann þá við því að vera “hálfvolg í áhuganum” (sjá Róm. 12.11-12).  Gríska orðið sem er notað hér er “okneros,” sama orð og Jesús notar í dæmisögunni um lata þjóninn sem ávaxtaði ekki féð sem honum var falið af húsbónda sínum til umsjár.  Ef þú situr á draumum þínum eða frestar þegar þú ættir að stuðla að vexti trúar þinnar má setja merkimiðann “latur” á þig.  Ekki bara byrja og gefast svo upp.  Vertu stöðugur og haltu áfram.  Ekki hætta.

3. Farangur sem íþyngir.  Ísraelsfólkið sem yfirgaf Egyptaland hefði getað þrammað inn í Fyrirheitna landið á nokkrum vikum, en það endaði fast í sama fari í 40 ár.  Hvers vegna?  Það dró syndir sínar með sér.  Því meiri farangur sem þú dregur á eftir þér, því ólíklegra er að þú náir á áfangastað.

Farangur sem íþyngir

Ég þekkti kristinn mann sem þjónaði meðal háskólanemenda.  En vegna þess að hann neitaði að leita hjálpar vegna klámfíknar sinnar kom sú fíkn í veg fyrir að hann gæti virkað eðlilega.  Hún endaði með að draga hann svo langt niður að hún eyðilagði bæði hjónaband hans og þjónustu.  Þú gætir haldið að þú getir stjórnað synd þinni, að þú hafir vald yfir henni, en hún er máttugri en þú.  Þú getur ekki tekið skref í rétta átt með hlass af skömm og fíkn á bakinu.  Iðrastu, játaðu veikleika þinn fyrir einhverjum öðrum og öðlastu frelsi.

4. Ótti við breytingar.  Margir finna tog í hjarta sínu sem segir: Byrjaðu í þessum Biblíuleshóp.  Farðu í þessa kristniboðsferð.  Skrifaðu þessa bók.  Startaðu þessum rekstri.  En þeir komast aldrei yfir fyrsta skref því þeir frjósa í sporunum.  Ekkert heldur þér í andlegri óvissu eins og ótti.  Hann lamar.

Sumir halda draumum sínum innra með sér áratugum saman - og taka þá svo með sér í gröfina.  Ef þú vilt vaxa verðurðu að taka áhættu.  Ekki láta ótta þinn við að tala á almannafæri, fljúga í flugvél, vera í stórum hópi fólks, hitta ókunnuga eða fá gagnrýni stoppa þig í að treysta á þann Guð sem er stærri en allir þessir hlutir.

5. Grunnhygginn sambönd.  Hverjum verð þú tíma með?  Leiðir Abrahams og Lots urðu að skilja því markmið þeirra voru mjög ólík.  Lot hafði sjálfhverfa innri hvöt, en Abraham hafði gefið sig allan undir Guðs vilja.  Ef þú eyðir öllum tíma þínum með sjálfselsku fólki sem er sátt við að lifa andlega ávaxtalausu lífi, þá endarðu eins og það.

Ef þú vilt stíga skref fram á við í andlega lífinu þetta árið, ekki vænta þess að stór hópur fólks fylgi þér.  Sumt fólk óskar ekki nærværu Guðs.  Ekki láta það draga þig niður.  Vertu viljugur að finna nýja vini sem vilja styðja þig í andlegri skuldbindingu þinni.

6. Fortíðar trúrækni og kreddufesti. Fólk sem er fast í trúrækni fortíðar byggir Guði minnismerki um það sem gerðist árið 1967, syngur söngva frá þeim tíma og skrifar bækur um “svona höfum við alltaf gert þetta.” En þegar Heilagur Andi kallar þau til að syngja nýjan söng (Sál 96.1), eða hann byrjar að gera nýja hluti (Jes 43.19a) þá móðgast þetta sama fólk. Þau eru föst í því að Guð starfi nákvæmlega eins og hann gerði fyrir 50 árum síðan.

En Guð er ekki alltaf á sama stað né gerir hlutina eins og áður. Hver hann er breytist ekki en hann kemur sífellt með ferskt orð og smurningu að úthella yfir sitt fólk. Hann elskar að koma okkur á óvart og gera framyfir það sem við gætum búist við. Ekki láta fortíðartrúrækni og kreddur halda þér frá því að upplifa ævintýri með Heilögum Anda Guðs.

Til umhugsunar

  1. Öðru hverju er gott að staldra við og gera vörutalningu í eigin lífi. Á stórhátíðum eins og jólum og páskum er þetta tilvalið. Hvernig er staðan í þínu lífi? Ef það skortir vöxt í þínu lífi, getur verið að eitthvað af því sem Lee talar um hér fyrir ofan sé til staðar? 

Höfundur: Lee Grady - tekið af bloggi hans Fire in my bones Þess má geta að Lee Grady verður aðal ræðumaður á Kotmóti 2017. Guðbjörg Hrönn Tyrfingsdóttir þýddi en Ágúst Valgarð Ólafsson rýndi og setti upp textann.

Á hverjum degi

Skrifað af Þorsteinn Jóhannesson. Posted in Pistlar

Biblían kennir að „Ef einhver er í Kristi, er hann skapaður á ný, hið gamla varð að engu, sjá, nýtt er orðið til.“ (2 Kor 5:17). Þannig að ef einhver gerist kristinn þá á breyting að verða í lífi hans. Það að vera kristinn þýðir að við eigum að reyna að líkjast Jesú.

Á hverjum degi

Páll talaði um að hann æfði sig eins og hnefaleikamaður sem engin vindhögg slær (1 Kor. 9:26). Það sama á við okkur ef við viljum fylgja Jesú og líkjast honum, þá verðum við að æfa okkur og við verðum að gera það á hverjum degi. Á hverjum degi verðum við að biðja og lesa í Biblíunni, annars náum við ekki að vaxa andlega og verða líkari Jesú.

Ekki bara það heldur ef okkur skortir andlegan vöxt þá erum við miklu veikari fyrir slæmum áhrifum þannig að við getum auðveldar leiðst út í að gera hluti sem hafa skaðleg áhrif á trúarlíf okkar. Rannsóknir sýna til dæmis að mjög hátt hlutfall kristinna fer reglulega á klámsíður á netinu. Ef það er raunin í okkar lífi hvernig getum við verið að vaxa og líkjast Jesú? Leiðin til að standast og vaxa andlega er að biðja og lesa í orði Guðs á hverjum degi.

Höfundur: Þorsteinn Jóhannesson

Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Af heilum hug

Til umræðu eða íhugunar

  1. Ert þú að biðja og lesa á hverjum degi?
  2. Hefur þú fundið fyrir nærveru Guðs þegar þú ert í bæn til hans (lýstu)? 
  3. Finnst þér erfitt að biðja eða lesa í orði Guðs?
  4. Hefur Guð talað til þín í gegnum orð sitt (lýstu)?
  5. Hefur þú verið að vaxa og líkjast Jesú meira síðustu mánuðina, árið, árin? Ef þú glímir þú við hulda synd eins og klám þá þarft þú að játa fyrir annarri manneskju sem þú treystir (Jak. 5:3)

Í bókinni "Af heilum hug" eru mjög góð verkefni og spurningar úr þessu efni. Bókina er hægt að nálgast í flest öllum Hvítasunnukirkjum. Sendu okkur línu ef þig vantar eintak eða komdu í heimsókn.

Smelltu til að hlusta eða horfa á kennslu

Trú er að treysta

Skrifað af Gunnhildur Stella Pálmarsdóttir. Posted in Pistlar

29.mars: Að þessu sinni er birtur gamall pistill frá Gunnhildi. Pistill úr predikun seinustu sunnudags frá Helgu Lind kemur síðar.

Við búum í samfélagi sem gerir ekki ráð fyrir því að við eigum að lifa í trú. Oft telst eðlilegt að ganga áfram í sínum eigin mætti þar sem við reynum að stýra og stjórna lífinu eftir okkar höfði, eins og við viljum hafa það. Ég var komin á þann stað að ég átti það til að skipa Guði fyrir. Ég vildi að hann gerði hitt og þetta núna eða strax. Þegar ég gerði mér grein fyrir eigingirninni á bak við bænirnar mínar uppgötvaði ég að ég var engan veginn á réttum stað.

Trú er að treysta

Guð vill auðvitað gefa börnum sínum góðar gjafir og blessa okkur. Í Lúkas 11:9-13 stendur:

Og ég segi yður: Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða.Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða.Er nokkur sá faðir yðar á meðal, að hann gefi syni sínum, er biður um fisk, höggorm í staðinn,eða sporðdreka, ef hann biður um egg? Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda, sem biðja hann.

Þegar börn biðja foreldra sína um hjálp vilja foreldrarnir hjálpa þeim. Þannig er líka farið með Guð. Hann vill svara bænum okkar. Stundum fáum við bænasvar strax en stundum þurfum við að bíða og knýja á í bæn. Á meðan við bíðum eftir bænasvarinu erum við oft óþolinmóð og skiljum ekki af hverju við þurfum að bíða. En eftir á þegar við sjáum tímasetningu bænasvarsins skiljum við tilganginn með þessu öllu.

Ég hef stundum þurft að bíða lengi eftir bænasvari og ég hef líka fengið bænasvar strax. En þegar ég hef þurft að bíða lengi þá verða ég oftar þeim mun þakklátar fyrir bænasvarið þegar það loksins kemur. En í bænum okkar þurfum við að hafa trú og eins og stendur í Jakobsbréfinu 1:6

En hann biðji í trú, án þess að efast. Sá sem efast er líkur sjávaröldu, er rís og hrekst fyrir vindi.

Oft hef ég farið í fordæmingu fyrir það að eiga kannski ekki næga trú í lífi mínu. Oftar en ekki hef ég beðið Guð um að hjálpa mér vegna vantrúar minnar rétt eins og faðir sveinsins gerði í Markús 9. kafla. Það sem Guð hefur verið að sýna mér undanfarið er eftirfarandi vers í Matteus 17. kafla

Sannlega segi ég ykkur: Ef þið hafið trú eins og mustarðskorn getið þið sagt við fjall þetta: Flyt þig héðan og þangað og það mun flytja sig. Ekkert verður ykkur um megn.

Það sem Jesús er að segja okkur þarna er að við þurfum ekki að hafa mikla trú. Mustarðskorn eða sinnepsfræ er mjög lítil fræ/korn. Ég þrái að hafa trú sem getur flutt fjöll, ég þrái að hafa óbifanlega trú og óbifanlegt traust á Jesú. Ég trúi því líka að Guð meti það þegar við erum heiðarleg. Ég þarf ekki að þykjast trúa einhverju heldur get ég talað orð Guðs inn í líf mitt og beðið Guð að auka mér trú. Þolinmæði og traust eru miklir mannkostir og ég trúi því að á okkar göngu með Guði vilja hann kenna okkur að vera þolinmóð og treysta honum.

Í þessari von erum við hólpin. Von, sem menn sjá fram komna, er ekki von. Hver vonar það sem hann sér? En ef við vonum það sem við sjáum ekki bíðum við þess með þolinmæði. Eins hjálpar andinn okkur í veikleika okkar. Við vitum ekki hvers við eigum að biðja eins og ber en sjálfur andinn biður fyrir okkur með andvörpum sem engum orðum verður að komið. Rómverjabréfið 8:24-26

Guð blessi þig

Höfundur: Gunnhildur Stella Pálmarsdóttir

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Skylt efni

Hvítasunnukirkjan á Selfossi