Á hverjum miðvikudegi birtist nýr pistill. Sendu okkur línu ef þú ert með hugmynd að pistli eða ef þú ert með spurningu sem mætti svara með pistli.

Föðurelska Guðs 1 af 2

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Þessi pistill er fyrsti hlutinn af tveim. Smelltu hér til að lesa annan hluta.

Hvernig við sjáum hlutina verður raunverulegt fyrir okkur. Það er þrennt sem skekkir mynd þína af Guði:

 1. Slæmar ákvarðanir - Demas elskaði heiminn (2Tim 4.10) og gekk í burtu. Afar heimskulegt.
 2. Foreldrar - ef þú áttir refsandi föður gætir þú haldið að Guð ætli að ná í skottið á þér.
 3. Satan - yfirskriftin á markmiði hans er: Breytum mynd þeirra af Guði. Það virkaði með Adam og Evu. Þú og ég erum næst á listanum.

Jesús málaði þessa mynd af Guði föður:

Faðirinn er ekki stjórnsamur

Týndi sonurinn bað um arfinn fyrirfram og Guð lét það eftir honum (Lúk 15.13). Sjáðu fyrir þér stjórnandi yfirmann, óörugga móður, sértrúarsöfnuð eða engil að nafni Lúsífer. Þetta er ekki sá faðir sem Jesú átti, sá öflugasti, mest elskandi, öruggasti og minnst stjórnandi persóna í alheiminum.

Sú „stjórn” sem Guð notar er fórnandi kærleikur. Hann eltir okkur uppi með kærleika sínum og hjarta okkar brestur á góðan hátt þegar við upplifum gæsku hans og góðvild.

Faðirinn er fullur hluttekningar

Heimurinn var þvert á það sem týndi sonurinn (Lúk 15) bjóst við: Heimurinn tók án þess að gefa. Stráksi ákvað að fara heim aftur. En er hann var enn langt í burtu, sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann. (Lúk 15.20). Virkilega?!? Já, svo sannarlega!

Ef þú áttir föður sem var fjarlægur eða stjórnandi móður þá skaltu vita að þau voru ekki fulltrúar fyrir Guð föður sem er fullur hluttekningar og samúðar.

Faðirinn fyrirgefur frjálslega

Sonurinn byrjaði að flytja afsökun sem hann hafði undirbúið. En faðirinn greip fram í fyrir honum og sagði “Komið fljótt með hina bestu skikkju…” Hann hafði heyrt nóg. Hann var sannfærður um hjarta sonar síns og fyrirgaf honum - frjálslega og að fullu. Þannig er Guð, alltaf!

Íhugun og framkvæmd

 1. Hvaða lýsingarorð myndir þú nota til að lýsa mynd þinni af Guð? Reyndu að finna það sem raunverulega er mynd þín af Guði en ekki það sem þú veist að „ætti” að vera mynd þín af Guði. Hvað einkenndi upplifun þína af foreldrum þínum?
 2. Hefur þú upplifað fyrirgefningu Guðs eins og lýst er í Lúk 15?

Höfundur: Paul Anderson Þýðandi: Ágúst Valgarð Ólafsson

Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Það sem ég elska mest við Jesú Ef þessi orð byggðu þig upp þá smelltu á Deila hér fyrir neðan til að fleiri byggist upp.

Þessi pistill er fyrsti hlutinn af tveim. Smelltu hér til að lesa annan hluta.

Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan til að hlusta/horfa á Helgu Lind Pálsdóttur segja frá sinni upplifun af föðurelsku Guðs.

Allt vald er mér gefið

Elskar þú Jesú?

Skrifað af Einar Aron Fjalarsson. Posted in Pistlar

Við lesum um það í 21. kafla Jóhannesarguðspjalls að Jesús og lærisveinarnir hafi setið og borðað morgunmat saman. Jesús ákvað að nýta tímann og talaði við Pétur og spurði hann spurningar. Sú spurning er vel við hæfi: „Elskar þú Jesú?“. Þetta er spurning sem við ættum að spyrja okkur á hverjum degi.

Jafnaldrar mínir hafa stundum hlegið af mér fyrir áhuga minn á jarðarförum og hef ég farið í þær ófáar þótt ungur sé. Sýn minni á dauðanum var breitt á örskot stundu í jarðaför nákomins ættingja fyrir nokkrum árum þegar presturinn útskýrði að við myndum svo hittast aftur í paradís. Hinn látni væri kominn á betri stað og finndi í raun varla fyrir tímanum sem við þurfum að láta líða þar til lífið endar hér. Þetta gat presturinn sagt og fullyrt því hinn látni átti sterka trú á Jesú Krist.

Í mörgum jarðarförum fer presturinn yfir það sem hinum látna hafði fundist skemmtilegt og verið góð í.„Hann elskaði að elda“ „Að versla var lífið“ „Hún elskaði að veiða“ „Hann var góður maður“ eða „hún var góð kona“ Allt eru þetta dæmi sem gætu vel hafa heyrst í jarðaförum. Þegar ég dey vil ég ekki að verði sagt um mig „og vá, hann kunni sko að fá fólk til að brosa og var góður vinur“.

Þetta eru alveg fallegir hlutir en það sem ég óska helst er að presturinn segi: „oh boy, þessi strákur...Hann elskaði sko Jesú!“.

Hvað með þig? Þegar þú ert ekki í kringum fólk, segja vinir þínir „Hann/hún elskar sannarlega Jesú“? Það getur svo sem enginn dæmt um trú þar sem hún fer fram í hjarta manns en það ætti alltaf að sjást á því hvernig við hegðum okkur, hvort við elskum Jesú eða ekki.

Kæri vinur, ef þú lest þennan pistil en þekkir ekki Jesú og vilt vita meira um hann, þá langar mig til þess að hvetja þig til að lesa í Biblíunni, Jóhannesarguðspjall er t.d. fín byrjun. Prófaðu svo að tala við Jesú.

Íhugun og framkvæmd

 1. Sýnir líf þitt að þú elskir Jesú? Hvernig á að lifa til að sýna að maður elski Jesú?
 2. Hvernig geturðu dýpkað samband þitt við Jesú?
 3. Þegar erfiðleikar lífsins skella á, treystir þú þá Jesú?

Höfundur: Einar Aron Fjalarsson

Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Það sem ég elska mest við Jesú Ef þessi orð byggðu þig upp þá smelltu á Deila hér fyrir neðan til að fleiri byggist upp.

Allt vald er mér gefið

Aldrei ein(n)

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Pistlar

Vilborg Arna kleif hæsta tind veraldar fyrst íslenskra kvenna. Í viðtali við morgunblaðið nefndi hún tvö atriði sem stæðu uppúr. Annað var að hafa náð að klára í þriðju tilraun. Hitt var vinátta hennar og sjerpans Tenji sem var með henni í ferðinni. „Ég kem heim með alveg ómetanlega vináttu í farteskinu. Mér þykir eiginlega vænst um það,“ segir Vilborg Arna. Vinátta og samkennd er með því sterkasta sem við getum upplifað.

Aldrei ein(n)

Á hinn bóginn eru einmanaleiki og einangrun meðal stærstu vandamála mannkynsins. Freddie Mercury öðlaðist heimsfrægð sem söngvari breska bandsins Queen. Hann sagði í viðtali 1985: „Þú getur átt alla þá hluti og eignir sem hægt er að ímynda sér en samt verið altekinn einmanaleika og þetta er bitrasta gerð einmanaleika. Velgengni hefur gert mig að átrúnaðargoði og fært mér milljónir punda. En um leið hindrað mig í að eignast það sem við öll þurfum: Kærleiksríkt og viðvarandi samfélag.”

Seinustu orð Matteusarguðspjalls eru (umorðað): Sjá ég er með ykkur alla daga, allt til enda veraldar.

Jesús segir þessi orð á hæð í Galíleu eftir upprisuna við þá 11 lærisveina sem voru eftir. Lærisveinarnir vissu að það að fara og gera allar þjóðir að lærisveinum myndi þýða svipuð örlög fyrir þá marga eins og þau sem Jesú hlaut fyrir sitt líf: höfnun, þjáningu og dauða. Það er eins og Jesú segi við þessa vini sína: Þið munuð fara og segja frá mér og gera aðra að lærisveinum mínum. Þetta verður erfitt, en ég verð með ykkur alla daga. Þið eruð ekki og verðið ekki einir.

Fyrir nokkrum árum gekk ég í gegnum erfiða tíma þar sem ég var svo aðkrepptur að innan að ég gat ekki einu sinni beðið. Í þessu ástandi ákvað ég að fara einn inn í herbergi, fjarlægja allar klukkur og leita Guðs þar til ég fyndi að nóg væri komið. Ég las upphátt úr sálmunum því ég gat ekki beðið með eigin orðum. Loks fann ég að eitthvað fór af stað, ég skynjaði óljóst nærveru Guðs. Guð hreyfði við hjarta mínu, gerði eitthvað. Ég fór breyttur út úr herberginu, ekki af því að neitt hefði breyst í aðstæðum mínum heldur vegna þess að ég vissi að Guð var til staðar. Ég var ekki einn.

Íhugun og framkvæmd

 1. Hefur þú eða ert þú að takast á við einmanaleika og einangrun? Hvernig myndir þú lýsa líðan þinni á þeim stað ef svo er?
 2. Hefur þú upplifað samkennd og vináttu? Hvaða áhrif hafði það?
 3. Lestu og íhugaðu Sálm 23. Taktu þér góðan tíma til að lesa sálminn oft yfir og sjá textann myndrænt fyrir þér. Getur þú rifjað upp tilvik í lífi þínu þar sem þú lést leiðast af Jesú eða önnur þar sem þú fórst þínar eigin leiðir?
 4. Aftur að Sálmi 23, hvað getur þú gert í lífi þínu til að leyfa Jesú sem best að vera hirðir í lífi þínu, eins og Davíð segir í upphafi sálmsins: Drottinn er minn hirðir? Ef þú ert í félagslegri einangrun þá biddu Guð um hjálp en leitaðu líka eftir tækifærum til að vera innan um annað fólk. Í þessari kirkju bjóðum við öllum sem vilja að koma í heimahópa sem hittast 2-4 sinnum í mánuði. Sendu okkur línu ef þú hefur áhuga á því að heimsækja heimahóp.

Höfundur: Ágúst Valgarð Ólafsson

Þessi pistill er hluti af predikunarseríu sem heitir Farið, gerið, skírið og kennið Ef þessi orð byggðu þig upp þá smelltu á Deila hér fyrir neðan til að fleiri byggist upp.

Allt vald er mér gefið

Velkomin(n) á póstlistann okkar.

Skylt efni

Hvítasunnukirkjan á Selfossi