Opið fyrir alla

Ég spjallaði við manneskju um daginn sem sagði við mig: Það að eiga góða vini hefur alltaf verið mér svo mikilvægt. Ég er svo þakklát(ur) fyrir að að eiga góða vini í dag. Þegar ég var barn átti ég ekki alltaf góða vini.

 Geta ekki allir tekið undir þetta? Við viljum vera meðtekin og viðurkennd af öðrum, við viljum fá að vera með.

Enginn hefur nokkurn tímann talað og kennt eins og Jesús frá Nasaret. Matteusarguðpjall kaflar 5-7 eru kallaðir fjallræðan. Jesús byrjar þessa ræðu á því sem hefur verið kallað sæluboðin og þau byrja á þessu: Sælir eru fátækir í anda, því að þeirra er himnaríki. Mat 5:3

Og þannig heldur Jesús áfram og segir m.a.

  • Sælir eru sorgbitnir
  • Sælir eru hógværir
  • Sælir eru þeir sem hungrar eftir réttlætinu
  • Sælir eru miskunnsamir
  • Sælir eru hjartahreinir
  • Sælir eru friðflytjendur
  • Sælir eru þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir
  • Sælir eruð þér, þá er menn smána yður

Hvað er Jesús að meina með þessu? Eitt má segja með öryggi: Jesús steig inn í þjóðfélag þar sem fólki var skipt upp í hópa, þar sem sumir voru “inni” en aðrir “úti” - og inn í þessar aðstæður byrjar Jesú fjallræðuna á sæluboðunum þar sem hann einfaldlega segir okkur að ríki Guðs er aðgengilegt fyrir ALLA sem vilja koma til hans.

Jesús valdi sér lærisveina úr ýmsum hópum þjóðfélagsins: Fiskimenn, tollheimtumenn og sumir voru jafnvel ungir menn sem vildu hefja vopnaða uppreisn gegn ríkjandi valdhöfum. Á meðan aðrir kennarar gyðinga völdu helst unga og vel gefna menntamenn frá Jerúsalem, þá valdi Jesús “venjulega” lærisveina. Jesús valdi fólk eins og mig og þig, venjulegt fólk.

Ef þú hefur upplifað sorg þá ert þú “inni” með Jesú. Sælir eru sorgbitnir. Ef þú hefur þráð réttlæti eftir að hafa horft upp á ranglæti þá ert þú “inni” með Jesú. Sælir eru þeir sem hungrar eftir réttlætinu. Allir þeir sem vilja fylgja Jesú eru “inni” (sælir) með honum því við höfum öll upplifað þá hluti sem Jesú telur upp í sæluboðunum.

Við þráum öll að vera meðtekin og eiga góðan vin. Það er vegna þess að Guð hannaði okkur til samfélags bæði við sig og aðra. Þess vegna upplifum við tómarúm innra með okkur þangað til sál okkar finnur heimili sitt hjá Guði.

Seinna í Matteusarguðspjalli segir Jesús: Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. (29) Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Mat 11:28-29

Allir geta komið til Jesú - og Jesús hvetur okkur til þess með því að segja: Komið til mín. Það eina sem getur virkilega hindrað okkur í að koma til Jesú erum við sjálf. Eina leiðin til að koma til Jesú er að gefast honum og viðurkenna að hann sé Drottinn eða sá sem með réttu ætti að vera leiðtoginn í lífi okkar. Þess vegna upplifa margir eins og togað í sig úr tveim áttum: Annars vegar er löngunin til að tengjast góðum Guði sem elskar okkur óendanlega mikið. Hins vegar er tregðan til að gefa upp forystuna yfir eigin lífi. Ef þú finnur löngun til að tengjast Jesú en finnst það erfitt þá vil ég hvetja þig til að setjast niður í einrúmi og tala við hann, eins eðlilega og blátt áfram og þú getur. Segðu honum hvað þér finnst erfitt og biddu hann um hjálp. Þetta getur verið fyrsta skrefið á löngu ferðalagi með honum sem verður fullt af friði og kærleika.

Það ferðalag að tengjast Guð gengur best ef við höfum góða ferðafélaga.

Ágúst Valgarð Ólafsson