Að lesa Biblíuna á nýju ári

Skrifað af Ágúst Valgarð Ólafsson. Posted in Fréttir

Að lesa Biblíuna á nýju ári

Það eru til margar leiðir að lesa Biblíuna. Að nota Biblíulestraráætlun hefur marga kosti:

  • Góð áætlun gefur góða yfirsýn yfir Biblíuna. Við lesum þá líka staði sem eru e.t.v. ekki vinsælir en geta verið afar gagnlegir.
  • Þú veist alltaf hvar þú ert staddur/stödd.
  • Einfalt markmið að keppa að.

Að sama skapi ber að varast að taka magn fram yfir gæði. Lestur á Biblíunni á ekki að snúast um að við komumst í gegnum Biblíuna heldur frekar að koma Biblíunni í gegnum okkur (John Ortberg).

Unglingastarf kirkjunnar fór af stað með Biblíulestrarátak núna um áramótin. Hvernig væri að fylgja fordæmi krakkana og setja sér áætlun um að lesa reglulega í Biblíunni á nýju ári? Það er hægt að velja úr nokkrum áætlunum, t.d.:

Öll Biblían á einu ári - 4 lestrar á dag

  • Þetta er áætlun þar sem öll Biblían er lesin á einu ári. Áætlunin skiptist í fjóra dálka eða hluta:  
    • guðspjöll
    • bréf og postulasagan
    • vísdómsrit, sálmar og ljóð
    • sögulegar bækur og spádómsrit
  • Um fjórir kaflar lesnir á hverjum degi frá mismunandi stöðum í Biblíunni.
  • Hægt að byrja hvenær sem er á árinu. Ef þú byrjar í dag þá lýkur þú áætluninni einfaldlega á sama degi á næsta ári.
  • 25 lestrar í hverjum mánuði til að gefa svigrúm til að ná upp dögum sem hafa dottið út og/eða taka sér tíma til að skoða nánar tiltekna staði.
  • Áætluninni er skipt í fjóra hluta á hverjum degi (sjá hér ofar). Ef það er of stórt verkefni að lesa alla Biblíuna á einu ári er hægt að skipta áætluninni á tvö ár, taka t.d. guðspjöll, vísdómsrit, sálmar og ljóð fyrra árið en hina tvo flokkana seinna árið.
  • Smelltu hér til að sækja þessa áætlun, öll Biblían á einu ári.
  • Þessi áætlun tekur um 15-20min. á dag.

Yfirlit yfir Biblíuna á einu ári

Þetta er styttri áætlun þar sem það er lesin u.þ.b. einn kafli í Biblíunni á dag. Smelltu hér til að sækja þessa áætlun. Aftast í þessari áætlun er lesning á íslensku, góð ráð ofl. varðandi lestur á Biblíunni. Þessi áætlun ætti ekki að taka meira en 5-10min. á dag.

Biblíulestraráætlun Biblíufélagsins 2017

Hið íslenska Biblíufélag hefur árlega gefið út Biblíulestraráætlun með stuttri lesningu fyrir hvern dag. Smelltu hér til að sækja þessa áætlun. Hafðu samband við Biblíufélagið til að fá prentuð eintök af þessari áætlun.

Öll Biblían á einu ári - 2 lestrar á dag

Hér er önnur áætlun þar sem öll Biblían er lesin á einu ári en með tveim lestrum á dag. Sumum finnst e.t.v. of víða farið að hafa 4 lestra á dag eins og í áætluninni hér fyrir ofan, þá getur þessi áætlun með 2 lestra á dag verið góður valkostur - smelltu hér til að sækja þessa áætlun.